Lífið

Fólk heldur að maður hafi ekki vit í kollinum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Birgitta Líf Björnsdótttir var gestur í hlaðvarpinu 24/7.
Birgitta Líf Björnsdótttir var gestur í hlaðvarpinu 24/7.

„Ég heyri oft að ég sé leiðinleg eða tussa eða góð með mig,“ segir Birgitta Líf Björnsdóttir markaðsstjóri World Class. Hún segir að orsökin sé einfaldlega feimni og hennar eigin óöryggi.

Birgitta segist vera miklu meira en bara áhrifavaldur, en sá titill sé samt oftast notaður um hana.

„Síðan heldur fólk ef maður er ljóshærð skvísa að maður sé ekki með vit í kollinum,“ segir Birgitta um algengan misskilning. 

„Það er ekkert það sem er sagt við mig þannig séð en þeir sem þekkja mig, vinkonur og vinir í kringum mig, hafa oft orð að því að fólk viti örugglega ekki hvernig ég sé eða hvernig ég hugsi.“

Birgitta er lærður lögfræðingur, stýrir markaðsmálum í fyrirtæki foreldra sinna og var auk þess að tilkynna að í sumar opnar hún skemmtistaðinn Bankastræti Club, þar sem áður var B5.

Í viðtali í hlaðvarpinu 24/7 með Begga Ólafs, ræðir Birgitta líf um það að vera áhrifavaldur, áhrif Covid-lokananna og margt fleira. 

Meira en bara áhrifavaldur

Birgitta Líf bendir á að hún hafi ekkert stefnt að því að verða áhrifavaldur, það hafi einfaldlega þróast þannig með auknum vinsældum hennar á samfélagsmiðlum.

„Með Instagram, maður dettur inn í að byrja með Snapchat með Reykjavík fit þegar við vorum yngri og vorum að deila æfingum. Svo stækkar það og svo í framhaldi stækkar mitt Instagram og svo fer maður að fá spennandi verkefni og einhvern veginn er maður orðinn áhrifavaldur.“

Hún segist ekki vera hrifin af því að það sé eini starfstitillinn sem fylgi henni. 

„Mér finnst það pirrandi orð. Ekki að mér finnist að það sé eitthvað að því að vera áhrifavaldur heldur af því að mér finnst ég vera svo miklu meira. Þetta er bara einhvað óöryggi í mér. Mér finnst leiðinlegt eins og þegar það er fjallað um eitthvað í fréttunum og það stendur áhrifavaldur Birgitta Líf.

Birgitta Líf ítrekar að henni finnist ekkert neikvætt að vera áhrifavaldur, hún væri einfaldlega til í að það væri líka nefnt það sem hún er að gera utan samfélagsmiðla.

„En ég er í mjög stórri stöðu í vinnunni, ég er búin með lögfræði, ég fór í Mastersnám. Mér finnst ég vera miklu meira heldur en áhrifavaldur.“

Hún segir að fólk sjái kannski bara ljóshærða stelpu á Instagram og haldi að hún geri ekkert í lífinu.

„Ég er alveg klár og les alveg fréttir og bækur og svona.“

Leið illa yfir sjálfsvorkuninni

Birgitta Líf talar einnig um Covid-19 í viðtalinu, en í marga mánuði var vinnustaður hennar World Class lokaður vegna heimsfaraldursins.

Í svona tvær vikur svaf ég sirka til hádegis, vaknaði, fékk mér að borða, fór upp í sófa, horfði á sjónvarpið, vorkenndi mér, leið ógeðslega illa. Það var ógeðslega mikið myrkur úti.

Hún segir að það hafi verið áskorun að hafa ekki vinnu til að mæta í.

Ég hafði ekki lengur orku til að mæta æfingar. Þetta var bara svona vonleysi.

Birgitta Líf segir að hún hafi sofið miklu meira en venjulega á þessu tímabili og vissi ekki lengur hvernig það væri að vera þreyttur. Hún segir að hún hafi einfaldlega ekki verið að eyða neinni orku.

Ég datt í einhverja sjálfsvorkunn. Síðan leið mér illa yfir því að hafa liðið illa. Skammaðist mín því ég hef það ógeðslega gott, ekkert sem mig vantar. Samviskubit yfir að líða svona og svo fær maður samviskubit yfir því að hanga upp í sófa. Af hverju er ég ekki að gera neitt? Þarna var ég sjálf að láta mér líða miklu verr en ég þurfti en svo allt í einu fer maður út úr því og halló rífðu þig í gang. Vaknaðu á morgnanna og farðu að æfa.

Hún ákvað að setja sér eitt markmið á dag, þannig líði henni betur og detti í gírinn.

Síðan þegar allt opnaði þá fann ég sjálfa mig aftur af því að það drífur mig áfram að hafa hluti fyri stafni, hafa einhver markmið, hafa tilgang, hitta fólk og allt þetta.

Í þættinum ræðir Birgitta um mikilvægi World Class í hennar lífi, erfiða tíma, lexíuna sem hún lærði í Covid, auðmýktina í að átta sig á að maður er ekki við stjórnvöllinn í lífinu, að allt gerist af ástæðu og margt fleira. Þú getur séð þáttinn í fullri lengd í spilaranum hér fyrir neðan eða undir nafninu 24/7 á Spotify, Youtube og helstu hlaðvarpsveitum.


Tengdar fréttir

Birgitta Líf endurreisir B5

Birgitta Líf Björnsdóttir, áhrifavaldur og World Class-erfingi, hefur tekið við lyklunum að Bankastræti 5, þar sem hún er að opna nýjan skemmtistað þegar veiran leyfir. Um er að ræða endurreistan B5, en sá skemmtistaður lagði upp laupana á síðasta ári í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.