Birgitta Líf staðfestir þetta í samtali við Vísi en vill ekki tjá sig að öðru leyti um áformin.
B5 hefur löngum verið einn vinsælasti skemmtistaður landsins og var ráðist í verulegar umbætur á innréttingu skemmtistaðarins síðasta sumar, þegar enn voru bundnar vonir við að geta opnað strax um haustið. Ekki varð af því.
Búast má við að ekki líðu á löngu þar til B5 verði aftur kominn í fulla sveiflu án þeirra tíma- og fjöldatakmarkana sem næturlífið hefur þurft að lifa við síðan í mars í fyrra.
Í síðari hluta júní hafa stjórnvöld boðað að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt, enda verði 75% Íslendinga 16 ára og eldri komnir með í það minnsta einn skammt af bóluefni.
Fyrri rekstraraðilar B5 kvörtuðu í heimsfaraldrinum sáran undan samskiptum sínum við leigusalann, sem er fasteignafélagið Eik. Félagið var sagt hafa hækkað leiguna á sama tíma og allur grundvöllur var horfinn undan rekstri skemmtistaðarins vegna samkomubanns. Loks var öllum starfsmönnum sagt upp í ágúst í fyrra.
Birgitta Líf er 28 ára gömul og hefur undanfarin ár starfað sem markaðsstjóri líkamsræktarstöðva World Class. Eigendur þeirrar keðju eru foreldrar Birgittu, Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir.