Innlent

Ás­mundur vill kanna hvort Al­þingi sé ekki örugg­lega vímu­efna­laus vinnu­staður

Jakob Bjarnar skrifar
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur heilshugar undir með manni sem ritaði þingheimi öllum bréf þar sem frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta er fordæmt.
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur heilshugar undir með manni sem ritaði þingheimi öllum bréf þar sem frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta er fordæmt. vísir/vilhelm

Ásmundur Friðriksson hefur lýst yfir þeim vilja sínum að kannað verði sérstaklega hvort Alþingi Íslendinga sé ekki vímuefnalaus vinnustaður og sýni þannig gott fordæmi.

Þingmenn ráku sumir hverjir upp stór augu þegar þeim í morgun barst tölvupóstur frá Ásmundi þar sem hann tók afar einarða afstöðu í fíkniefnamálum:

„Bestu þakkir fyrir þennan póst og þessar hugleiðingar þínar. Tek heilshugar undir þær. Það væri vel til fundið að kanna hvort Alþingi sé ekki vímuefnalaus vinnustaður og sýna þannig gott fordæmi,“ segir í tölvupósti Ásmundar sem Vísir hefur undir höndum.

En þegar nánar er að gáð kemur í ljós að þarna er um að ræða svar Ásmundar til einstaklings sem hafði sent bréf sem stílað var á þingheim allan. Þar geldur sá, í alllöngu máli, varhug við afglæpavæðingu neysluskammta sem mjög hefur verið til umræðu á þinginu vegna frumvarps Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. 

Afstaða til þess virðist ganga þvert á flokkslínur og þvert á stjórn/stjórnarandstöðu, eins og sýnir sig í afdráttarlausu bréfi Ásmundar. Ekki liggur fyrir hvort Ásmundur ætlaði að gera „svara öllum“ fyrir slysni eða hvort hann ætlaði svarpóst sinn einungis til bréfritara.

Í bréfinu til þingmanna, því sem Ásmundur kvittar heilshugar undir, segir meðal annars:

„Ég heiti á ykkur ágætu þingmenn að hugleiða mjög vel afstöðu ykkar til þess hvort heimila eigi neyslu eiturlyfja í okkar góða þjóðfélagi. Hugsið til fjölskyldna ykkar og um framtíð afkomenda ykkar þegar þið greiðið þessu skelfilega frumvarpi heilbrigðisráðherra atkvæði.“


Tengdar fréttir

Miðflokkurinn svarar frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta

Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um viðspyrnu við vímuefnavanda og fíkn. Málið má kalla andsvar þeirra við frumvarpi heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta sem flokkurinn hefur verið mótfallinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.