Innlent

Fari hjól atvinnulífsins ekki að taka hratt við sér gæti þurft að ráðast í opinberar fjárfestingar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson Vísir/Vilhelm

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að þúsund ráðningarsamningar hafi orðið til og um fjögur þúsund séu í ferli vegna verkefnisins Hefjum störf. Fari hjól atvinnulífsins ekki að taka hratt við sér gæti þurft að ráðast í opinberar fjárfestingar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir atvinnulífið hægt og rólega að taka við sér. Sjáanlegur árangur sé af verkefni félagsmálaráðherra, Hefjum störf.

„Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur mælst mjög vel fyrir og þetta verkefni gengur eiginlega betur en maður hefði getað trúað. Ég held að um daginn hafi það verið um fjögur þúsund sem voru komin í einhvern feril og tæpir þúsund ráðningarsamningar orðnir,“ Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í þættinum Sprengisandi í morgun.

Leggja þurfi áherslu á grænar fjárfestingar og fjárfestingar í fólki.

„Síðan er engin spurning í mínum huga að við erum að fara að leggja miklu, miklu meiri áherslu á hinar skapandi greinar. Það verður undirstaða næstu meginatvinnugreinar Íslands og það er búið að tala um það lengi en við erum búin að vinna okkur í haginn þangað.  En ég held að nákvæmlega hvernig við ætlum að komast þangað, muni að einhverju leyti kosningarnar í haust snúast um.“ 

Það gæti þó komið til skoðunar að stjórnvöld þurfi að grípa inn í fari hjól atvinnulífsins sjálfkrafa ekki að snúast hratt.

„Það getur alveg komið til þess að ef hið almenna atvinnulíf höktir í uppbyggingunni á næstu mánuðum að þar þurfi einfaldlega að taka af skarið um enn frekari opinbera fjárfestingu þó svo að við þurfum að taka lán fyrir því,“ sagði Sigurður Ingi.

Í spilaranum hér að neðan má hlusta í heild sinni á viðtal Kristjáns Kristjánssonar við Sigurð Inga Jóhannesson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×