Innlent

Skag­­firðingar bíða niður­staðna til að á­kveða næstu skref

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hátt í 200 manns fóru í skimun í dag eftir að fjögur greindust með kórónuveiruna í Skagafirði.
Hátt í 200 manns fóru í skimun í dag eftir að fjögur greindust með kórónuveiruna í Skagafirði. Vísir/Vilhelm

Ólíklegt er að niðurstöður úr sýnatökum hátt í 200 Skagfirðinga frá því í dag liggi fyrir fyrr en á morgun. Sveitarstjórinn segir að viðbrögðin við mögulegu hópsmiti ráðist af þeim niðurstöðum og að fólki í samfélaginu sé brugðið.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé búist við að niðurstöður skimunar liggi fyrir í kvöld. Á annað hundrað Skagfirðinga fóru í sýnatöku í dag eftir að fjórir einstaklingar greindust með kórónuveiruna á svæðinu.

Af þeim sem fóru í sýnatöku í dag eru um 80 í úrvinnslusóttkví, þar sem þeir hafi verið í einhvers konar tengslum við þau sem greindust. Ákveðið var að bjóða fleirum á svæðinu upp á skimun, sem varúðarráðstöfun.

„Þetta var þó nokkur fjöldi sem fór [í skimun] sem hefur sennilega lítil eða engin tengsl við þessa aðila. Þetta er varúðarráðstöfun og fólk beðið um að hafa hægt um sig,“ segir Sigfús.

Skellur

Sigfús segir að fólki sé brugðið við möguleikann á því að hópsýkingin sé að koma upp í Skagafirði.

„Auðvitað voru menn, eins og þjóðin, vongóðir um að við værum á réttri leið og bólusetningar ganga vel. Það hefur gengið vel á okkar svæði þannig að þetta er auðvitað skellur. Við vonum að þetta verði sem minnst,“ segir Sigfús.

Hann segir viðbrögðin við mögulegri hópsýkingu velta á því hversu stór fjöldi komi til með að greinast jákvæður og hvort viðkomandi hafi tengsl inn í skóla og annað slíkt á svæðinu.

„Það áttu að koma niðurstöður í kvöld eða fyrramálið, eftir því hvað það gengur hratt að greina. Þetta ræðst bara rosalega mikið af því,“ segir Sigfús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×