Innlent

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir að hafa kyn­­ferðis­­lega á­reitt þrjár stúlkur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn afhenti fjórum stúlkum ítrekað áfengi og áreitti þrjár þeirra kynferðislega. 
Maðurinn afhenti fjórum stúlkum ítrekað áfengi og áreitti þrjár þeirra kynferðislega.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður var í Landsrétti í dag dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og gert að greiða tveimur stúlkum miskabætur fyrir að hafa áreitt þær kynferðislega. Hann er sakfelldur fyrir að hafa ítrekað afhent fjórum stúlkum áfengi og að hafa káfað á þremur þeirra.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa afhent fjórum stelpum undir lögaldri áfengi, sem hann játaði, að hafa káfað á þremur stúlkum og kysst eina þeirra tungukossi, sem hann neitaði að hafa gert. Þá var hann ákærður fyrir að hafa áreitt barn kynferðislega.

Málið má rekja til júlímánaðar 2017 þegar lögregla var kölluð til viðræðna við stúlkurnar sem höfðu tilkynnt kynferðislega áreitni af hálfu mannsins. Greindu stúlkurnar þá frá því að maðurinn hafi í apríl sama ár keypt fyrir þær vodka. Eftir það hafi þær farið heim til mannsins og í kjölfarið hafi hann farið að senda þeim SMS þar sem hann hafði beðið þær um að koma eina og eina.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi einnig sent þeim skilaboð og sagst vera ástfanginn af stúlkunum. Stúlkurnar sögðu allar frá því að maðurinn hafi káfað á þeim, misgróft, en að hann hafi til að mynda snert á þeim læri, flengt þær og gripið um brjóst þeirra.

Ein stúlknanna varð þó verst fyrir honum, að sögn stúlknanna, en í eitt sinn sem þær voru hjá honum hafði maðurinn gripið í stúlkuna og kysst hana tungukossi.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í október 2019 um refsingu mannsins en hækkaði einkaréttarkröfur tveggja stúlknanna. Í héraðsdómi var manninum gert að greiða einni þeirra 200 þúsund krónur, sem Landsréttur hækkaði í 400 þúsund krónur, og annarri 75 þúsund krónur, sem Landsréttur hækkaði í 150 þúsund krónur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.