Innlent

Títan díoxíð (E171) verður ekki lengur leyfilegt aukaefni í matvælum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Títan díoxíð hefur verið notað í matvælaframleiðslu og ýmsar snyrtivörur.
Títan díoxíð hefur verið notað í matvælaframleiðslu og ýmsar snyrtivörur.

Títan díoxíð er ekki lengur talið öruggt aukaefni í matvælum, samkvæmt Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA). Ekki hefur verið sýnt fram á skaðsemi efnisins með óyggjandi hætti en ekki er hægt að útiloka skaðleg áhrif á erfðaefni út frá nýjum rannsóknum.

Frá þessu er greint á vef Matvælastofnunar.

Títan díoxíð (E171) er notað sem litarefni í ýmis matvæli til að gefa þeim hvítan lit. Má þar meðal annars nefna bökunarvörur, barnamat, súpur og sósur.

„Eituráhrif á erfðaefni er eiginleiki efna til að skaða erfðaefni fruma (DNA) og auka þannig líkur á krabbameini. Því er nauðsynlegt að meta möguleika efna til að hafa slík áhrif til að leggja mat á öryggi þeirra. Einungis lítill hluti efnisins er tekinn upp í meltingarvegi en möguleiki er á að það geti safnast upp í líkamanum,“ segir á vef MAST.

Títan díoxíð var síðast tekið til endurmats hjá EFSA árið 2016 en síðan þá hafa verið gerðar þúsundir rannsókna sem nýjasta mat stofnunarinnar byggir á.

„Í kjölfar áhættumatsins má búast við að efnið falli út af lista yfir leyfileg aukefni í Evrópusambandinu. Löggjöf Evrópusambandsins um aukefni gildir einnig á Íslandi og í Noregi.“

Þess má geta að títan díoxíð er einnig notað í snyrtivörur, meðal annars púður og sólarvarnir. Á vef EFSA er ítrekað að umrædd ákvörðun nær eingöngu til notkunar efnisins í matvælum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.