Fótbolti

Betur fór en á horfðist en Sveindís missir þó af fjölda leikja

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir ætti að geta snúið aftur á fótboltavöllinn í næsta mánuði eftir að meiðsli hennar reyndust ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu.
Sveindís Jane Jónsdóttir ætti að geta snúið aftur á fótboltavöllinn í næsta mánuði eftir að meiðsli hennar reyndust ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu. vísir/vilhelm

Sveindís Jane Jónsdóttir verður frá keppni fram í miðjan júní vegna hnémeiðsla en hún var borin meidd af velli í leik með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni um helgina.

Faðir Sveindísar, Jón Sveinsson, greinir frá því á Facebook að landsliðskonan verði frá keppni í um það bil sex vikur eftir að hafa fest annan fótinn í gervigrasvellinum og snúið upp á hnéð. 

Jón segir að ljóst sé að betur hafi farið en á horfðist því óttast hafi verið að Sveindís yrði frá keppni í níu mánuði. Það er sá tími sem ætla má að það taki leikmenn að jafna sig sem verða fyrir því óláni að slíta krossband í hné.

Sveindís kemur til með að missa af næstu fimm leikjum Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni áður en við tekur landsleikjahlé, og búast má við að hún missi af þeim vináttulandsleikjum sem Ísland spilar í júní sem ekki er ljóst gegn hverjum verða. 

Það er hins vegar langt í næstu mótsleiki landsliðsins sem verða í nýrri undankeppni HM í september.

Sveindís hafði átt draumabyrjun í atvinnumennsku því hún skoraði í fyrstu tveimur leikjum sínum með Kristianstad og lagði upp eitt mark. Liðið er með sjö stig eftir þrjár umferðir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.