Fótbolti

Bruno Fernandes: Vill verða stjóri Man United einn daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Bruno Fernandes í leik með Manchester United á dögunum.
 Bruno Fernandes í leik með Manchester United á dögunum. EPA-EFE/Peter Powell

Bruno Fernandes er svo sáttur hjá Manchester United að hann sér fyrir sér að vinna áfram hjá félaginu eftir að leikmannaferlinum lýkur.

Manchester United mætir í kvöld ítalska félaginu Roma á Old Trafford í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Evrópudeildinni. Bruno Fernandes var í viðtali á heimasíðu félagsins fyrir leikinn.

Bruno Fernandes hefur gert flotta hluti hjá Manchester United síðan að hann kom til félagsins frá Sporting Lisbon fyrir rúmu ári síðan. Hann finnur sig vel hjá Rauðu djöflunum.

Portúgalinn er þegar byrjaður að velta fyrir sér framtíðinni þótt að hann sé enn bara 26 ára gamall.

„Ég er að reyna að njóta fótboltans núna en ég vil verða þjálfari í framtíðinni,“ sagði Bruno Fernandes.

„Í hreinskilni sagt þá veit ég ekki hvaða lið ég vil þjálfa í framtíðinni en auðvitað væri stærsta félagið Manchester United. Ég yrði mjög ánægður með að fá að vera stjóri Man. United,“ sagði Bruno.

„Ég vil bara leyfa fólk að vita af þessu núna að ég ætla mér að verða knattspyrnustjóri í framtíðinni og stuðningsmennirnir gætu pressað á það að fá mig hingað,“ sagði Fernandes sem vill verða stjóri Manchester United einn daginn.

„Ég tel að ég verði að vera áfram í kringum fótboltann því allt lífið mitt snýst um hann. Framtíðin mín verður því að vera í fótbolta líka,“ sagði Bruno Fernandes.

Bruno Fernandes á enn eftir að vinna sinn fyrsta titil með Manchester United en félagið kæmist einu skrefi nær að breyta því með góðum úrslitum á móti Roma í kvöld.

Leikur Manchester United og Roma verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 í kvöld og hefst útsendingin klukkan 18.50. Á sama tíma verður hinn undanúrslitaleikurinn á milli Villarreal og Arsenal sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×