Fótbolti

Ajax með níu fingur á titlinum eftir sigur á AZ

Valur Páll Eiríksson skrifar
Albert Guðmundsson í baráttunni við Dusan Tadic sem lagði upp fyrra mark Ajax.
Albert Guðmundsson í baráttunni við Dusan Tadic sem lagði upp fyrra mark Ajax. ANP Sport via Getty Images/ED VAN DE POL

Albert Guðmundsson lék fyrstu 73 mínútur leiksins í 2-0 tapi liðs hans AZ Alkmaar fyrir Ajax á Johan Cruyff-vellinum í Amsterdam. Ajax gott sem tryggir sér hollenska meistaratitilinn með sigrinum en AZ berst fyrir Evrópusæti.

Albert byrjaði leikinn á miðsvæði AZ ásamt Teun Koopmeiners og Fredrik Midtsjö. Albert fékk fínt færi í fyrri hálfleiknum er hann slapp í gegnum vörn Ajax en reynsluboltinn Maarten Stekelenburg í marki Ajax sá við honum.

Markalaust var í leikhléi en eftir um tuttugu mínútna leik í síðari hálfleik var Davy Klaassen, fyrrum leikmaður Everton, einn á auðum sjó á teig AZ hvaðan hann afgreiddi boltann í netið í kjölfar undirbúnings Dusan Tadic.

Stekelenburg sá við Alberti þegar hann slapp inn fyrir vörn Ajax í fyrri hálfleiknum.ANP Sport via Getty Images/MAURICE VAN STEEN

Alberti var skipt af velli um sjö mínútum síðar en AZ náði ekki að setja mark sitt á leikinn á lokakaflanum. Klaassen skoraði sitt annað mark er hann innsiglaði 2-0 sigur Ajax í uppbótartíma.

Ajax er eftir sigurinn með 76 stig á toppi deildarinnar, tólf stigum á undan PSV Eindhoven í öðru sætinu þegar fjórir leikir eru eftir. PSV getur því tölfræðilega enn unnið titilinn á markatölu, vinni þeir alla sína leiki og Ajax tapi sínum. PSV þarf þó að vinna upp 32 mörk í markatölumun að auki.

Ajax getur því gott sem gengið að sínum 35. hollenska meistaratitli sem vísum.

AZ er með 61 stig í þriðja sætinu, Evrópusæti, fimm stigum á undan Vitesse Arnhem í fjórða og sjö á undan Feyenoord sem í því fimmta. Vitesse og Feyenoord eigast við innbyrðis síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×