Innlent

Hátt í 75 manns tengdir Jörfa smitaðir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hópsýking braust út í leikskólanum Jörfa.
Hópsýking braust út í leikskólanum Jörfa. Vísir/Vilhelm

Hátt í sjötíu og fimm manns sem tengjast leikskólanum Jörfa hafa greinst með kórónuveirusmit undanfarna daga. Afleysingafólk og starfsfólk af öðrum leikskólum verður fengið til starfa á Jörfa á meðan hinir veiku jafna sig.

Um hundrað og fimmtíu börn sem tengjast leikskólanum Jörfa fóru í seinni skimun í gær. Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu mörg börn eða starfsmenn leikskólans greindust í seinni skimun, en samkvæmt bráðabirgðatölum almannavarna greindust í heildina sautján manns í gær og þar af var einn utan sóttkvíar.

„Við höfum ekki alveg staðfestar upplýsingar um það en miðað við póstnúmer 108 þá má búast við að í það heila að smit sem tengjast Jörfa, hjá starfsfólki, börnum og fjölskyldu, séu á bilinu 65 til 75 smitaðir,” segir Helgi Grímsson, forstöðumaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Skert starfsemi eftir helgi

Stefnt er á að fá fólk til starfa og opna leikskólann að einhverju leyti eftir helgi.

„Við fáum fólk annars staðar frá þannig að við búumst fastlega við því að geta hafið starfsemi á mánudag eða þriðjudag en það verður ekki full starfsemi.”

Borgin mun funda vegna málsins í dag og upplýsa foreldra í framhaldinu um hvernig í pottinn verði búið. Þó sé ljóst að starfsemin verði takmörkuð en það muni meðal annars skýrast þegar búið sé að ráða starfsfólk tímabundið á meðan annað starfsfólk jafnar sig af kórónuveirunni.

Helgi segir að sóttvörnum hafi verið vel sinnt á leikskólanum.

„Í raun og veru var verklagið í leikskólanum Jörfa samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis. Og við höfum ekki fengið nein skilaboð um að við eigum að breyta okkar uppleggi en það var kannki aðallega þessi brýning að það eigi enginn að koma til starfa í leikskóla ef menn finna fyrir einhverjum kvefeinkennum eða slíku. Það er brýning sem við höfum heldur betur boðið okkar starfsfólki.”



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×