Fótbolti

Finnst nýtt fyrir­komu­lag Meistara­deildarinnar litlu skárra en ofur­deildin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ilkay Gündogan og félagar í Manchester City eiga möguleika á að vinna þrjá titla á tímabilinu.
Ilkay Gündogan og félagar í Manchester City eiga möguleika á að vinna þrjá titla á tímabilinu. getty/Michael Steele

Ilkay Gündogan, leikmaður Manchester City, segir að nýtt fyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu sé litlu skárra en ofurdeildin sem sex af stærstu félögum Evrópu ætluðu að stofna.

Fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi Meistaradeildarinnar féllu í skuggann af fréttum um ofurdeildina þegar þær voru tilkynntar á mánudaginn.

Breytingarnar eiga að taka gildi 2024. Í stuttu máli verður þátttökuliðum fjölgað um fjögur, úr 32 í 36, og leikið verður í einni deild en ekki átta riðlum eins og áður. Öll liðin leika tíu leiki og efstu átta liðin í deildinni komast í útsláttarkeppnina.

Gündogan er ekki hrifinn af nýja fyrirkomulaginu, eða „svissneska kerfinu“ eins og það hefur verið kallað. Hann spyr sig hvort UEFA sé ekki umhugað um heilsu leikmanna.

„Með allt ofurdeildarmálið í fullum í gangi getum við rætt aðeins um nýja fyrirkomulagið í Meistaradeildinni?“ skrifaði Gündogan á Twitter.

„Fleiri og fleiri leikir, er enginn að hugsa um okkur leikmennina. Nýja fyrirkomulagið er bara illskárra en ofurdeildin.“

Gündogan bætti svo við að núverandi fyrirkomulag Meistaradeildarinnar væri frábært og það sé ástæðan fyrir því að þetta væri vinsælasta félagsliðakeppni heims, bæði hjá leikmönnum og aðdáendum.

Gündogan og félagar í City mæta Tottenham í úrslitaleik enska deildabikarsins á sunnudaginn. Á miðvikudaginn sækir liðið svo Paris Saint-Germain heim í fyrri leiknum í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Gündogan hefur spilað frábærlega í vetur og er markahæstur í liði City á tímabilinu með sextán mörk í öllum keppnum.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×