Innlent

„Suðurnes eru heitasti sumardvalastaðurinn á árinu“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Vísir/Arnar

Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum segir aukna bjartsýni á svæðinu. Eldgosið hafi reynst mikil landkynning og verkefni í kringum uppbyggingu í Geldingadölum skapi mörg atvinnutækifæri. Hún telur að Suðurnes verði heitasti sumardvalarstaðurinn í ár. 

„Við fengum Íslandsstofu til að skoða fyrir okkur hvaða áhrif erlend umfjöllun hefði á áhuga á Íslandi. Niðurstaða var að þegar eldgosið hafði verið í gangi í þrjár vikur höfðu lesendur erlendis lesið fréttir af gosinu 23 milljarða sinnum.  Verðmat þessa er metið á ríflega sex milljarða þ.e. ef umfjöllunin hefði verið keypt,“ segir Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum . 

„Svæðið hér á Reykjanesi er skilgreint sem UNESCO Global Geopark og höfum skilgreint 55 áhugaverða staði á svæðinu.  Suðurnes bjóða líka upp á ýmis konar menningu og afþreyingu. Við höfum því væntingar um að fólk komi hingað sérstaklega til að skoða eldgosið en líka aðrar minjar á svæðinu. Við vonum að þetta auki áhuga fólks á að koma og sjá gosið þegar það er í gangi en líka þegar því lýkur því þá er þetta eitt nýjasta land jarðkringlunnar. Suðurnes eru heitasti sumardvalastaðurinn á árinu,“ segir Berglind en bætir við að staða kórónuveirufaraldursins hafi að sjálfsögðu áhrif á hversu margir ferðamenn geti eða muni koma . 

Ferðamálaráðherra skipaði starfshóp um uppbyggingu í Geldingadölum sem á að skila fyrstu tillögum um næstu mánaðamót. Berglind segir að eldgosið geti haft mörg jákvæð áhrif á langtímaatvinnuleysi á svæðinu.

„Það er um 24% atvinnuleysi á Suðurnesjum en við vonum að með verkefnum sem tengjast uppbyggingu á gossvæðinu verði hægt að draga úr því og svo að sjálfsögðu þegar ferðamannastraumurinn fer aftur að aukast.  Grindavíkurbær hefur til að mynda gefið út að fólk verði ráðið í verkefni af atvinnuleysisskrá. Fólk væri til að mynda ráðið í störf til að aðstoða landverði á svæðinu og í verkefni sem tengjast uppbyggingu þess almennt,“ segir Berglind. 

„Við fengum þær frábæru fréttir frá Airport associates í síðustu viku að Bandarísk flugfélög eins og Delta ætli að byrja nú í maí að fljúga til landsins með bólusetta Bandaríkjamenn,“ segir Berglind. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×