Innlent

Samkeppniseftirlitið greinir stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið vinnur nú að því að skoða stjórnunar- og eignatengsl milli fyrirtækja í íslensku atvinnulífi og hefur í því skyni leitað til annarra stofnana, fræðimanna og ráðgjafa.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Þar er vísað til skýrslu sem sérfræðingahópur verkalýðshreyfingarinnar gaf út í tengslum við fyrirhugaða sölu á Íslandsbanka, þar sem settar voru fram „efasemdir um getu íslenskra eftirlitsaðila til að fylgjast með flóknum og földum eignatengslum í hagkerfinu,“ að því er segir í Fréttablaðinu.

Þar er einnig vitnað í svar Samkeppniseftirlitsins við fyrirspurn blaðsins, þar sem segir að stofnunin sé að undirbúa að taka saman heildstæðar upplýsingar um eftirlit og aðgerðir er varða stjórnunar- og eignatengsl.

Þá sé verið að leita leiða til að styrkja yfirsýn yfir stjórnunar- og eignatengsl.

„Við þessa vinnu er eftirlitið að leita til annarra stofnana sem búa yfir upplýsingum um eða fylgjast með atvinnulífinu. Jafnframt hefur eftirlitið leitað til fræðimanna sem hafa skoðað þessi mál, auk annarra ráðgjafa, til dæmis á sviði hugbúnaðar,“ segir í svarinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×