Lífið

„Fyrir löngu búinn að reka þig ef þú værir ekki svona góður fyrir móralinn“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pétur Jóhann er kominn í starf sem hann segist vera bestur í, að spjalla við fólk um daginn og veginn.
Pétur Jóhann er kominn í starf sem hann segist vera bestur í, að spjalla við fólk um daginn og veginn.

Pétur Jóhann Sigfússon hefur verið einn vinsælasti grínisti og leikari landsins undanfarin tuttugu ár.

Alltaf verið nóg að gera en í kjölfar heimsfaraldurs fóru verkefnin að verða færri. Hann tók aftur á móti málin í sínar hendur og bjó til nýtt starf. Pétur Jóhann vinnur í dag hjá veitingarrisanum Gleðipinnar og sennilega við það sem hann er bestur í, að spjalla við fólk til að bæta starfsandann.

„Ef ég á að reyna segja frá þessu í stuttu máli þá byrja ég á því að fá mér kaffi svo rölti ég af stað og spjalla við fólkið. Þetta er í raun spjallmeðferð sem ég er að bjóða upp á. Ég er búinn að ganga með drög af þessari hugmynd í mörg ár og núna er komin reynsla á þetta hér innan fyrirtækisins. Fullt af veitingastöðum og ég keyri á milli og svo veit ég ekkert hvað gerist. Byrja bara að spjalla en þetta er það sem ég hef verið að gera meira og minna alla mína ævi,“ segir Pétur Jóhann og heldur áfram.

„Einhvers staðar las ég eða heyrði að maður ætti að gera það sem maður er góður í og ég veit að ég er góður í þessu. Að tala við fólk sem ég þekki ekki neitt um eitthvað.“

Pétur hefur nú þegar farið á alla veitingastaði Gleðipinna oftar en einu sinni og því er starfsfólkið farið að þekkja hann nokkuð vel. Hann segist alls ekki mæta á staðina til að fara með uppistand heldur einfaldlega til þess að gefa sér tíma til að ræða við starfsfólkið um daginn og veginn.

„Ég er ekki upp á sviði og ég er ekki með hljóðnema og engar upp stilltar aðstæður. Ég er ekki að gera neinar kröfur á starfsfólkið og þau gera engar kröfur til mín. Þetta er bara spjall og ég hef verið að reyna skilja eftir góðan móral og bros á vör.“

Pétur segist sjá fyrir sér að vinna meira við þetta og jafnvel fyrir fleiri fyrirtæki og sér hann fyrir sér að þetta verkefni geti orðið enn stærra. Á sínum tíma vann Pétur Jóhann hjá Byko og það í heil átta ár. Hann var ekki besti starfskrafturinn en mikilvægur var hann.

Pétur keyrir um á sér merktum bíl og sinnir sínu starfi sem spjallari.

„Ég var þarna í átta ár og var vinsæll á vinnustaðnum. Þá sagði yfirmaður minn einu sinni við mig þegar ég hafði mætt of seint eða eitthvað álíka. Pétur þetta er ekki fyndið, mér finnst þú ekki fyndinn og ef ég segi þér alveg eins og er þá væri ég fyrir löngu búinn að reka þig ef þú værir ekki svona góður fyrir móralinn.“

Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Gleðipinna, segir að tilraunin hafi heldur betur heppnast vel og haft góð áhrif. Það hafi sýnt sig í öllum rannsóknum að starfsumhverfi skipti sköpum hjá fyrirtækjum.

„Ég hélt að hann væri að fíflast fyrst en þegar hann fór að lýsa þessu fyrir mér sá ég að honum var full alvara. Við erum á áhugaverðum stað með okkar fyrirtæki og mér fannst þetta skemmtilega galin hugmynd sem passar ágætlega við það sem við viljum ná fram hér,“ segir Jóhannes.

Hér að ofan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×