Erlent

Leiðtogi Sinn Féin biðst afsökunar á morðinu á Mountbatten lávarði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lord Mountbatte, í miðjunni, heimsækir John F. Kennedy í Hvíta húsið.
Lord Mountbatte, í miðjunni, heimsækir John F. Kennedy í Hvíta húsið. John F. Kennedy Presidential Library

Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, hefur beðist afsökunar á dauða Mountbatten lávarðs, frænda hertogans af Edinborg. Mountbatten var myrtur af Írska lýðveldishernum (IRA) árið 1979.

McDonald sagði í samtali við Times Radio eftir útför Filippusar prins að henni þætti leitt að Mountbatten, sem var 79 ára, hefði látist þegar sprengja sprakk um borð í fiskibát.

Mountbatten var móðurbróðir Filippusar og hann og Karl prins voru afar nánir.

Þegar hún var spurð að því hvort hún vildi biðja Karl fyrirgefningar sagði hún að herinn sem Karl væri partur af hefði framið mörg grimmdarverk á Írlandi.

„Ég get sagt; að sjálfsögðu þykir mér leitt að þetta gerðist. Að sjálfsögðu þá er þetta sorglegt. Starf mitt, og ég held að Karl prins og aðrir skilji það, er að leiða núna, á þessum tímum,“ sagði McDonald.

Hún sagði það hlutverk ráðamanna nú að tryggja að ekkert barn og engin fjölskylda upplifði í dag þau áföll og þá sorg sem hefðu eitt sinn verið landlæg á Írlandi og víðar.

Mountbatten var við veiðar við Mullaghmore, þar sem hann var í sumarfríi í Classiebawn-kastala, þegar hann var myrtur. Aðrir sem létust voru barnabarn hans, hinn fjórtán ára Nicholas Knatchbull, annar fimmtán ára drengur og tengdamóðir dóttur Mountbatten.

Gerry Adams, fyrrverandi leiðtogi IRA, neitaði að biðjast afsökunar á morðinu. Hann sagði atvikið vissulega dapurlegt en að Mountbatten vissi hvaða áhættu hann væri að taka með því að ferðast til Írlands.

Sex ár eru liðin frá því að Adams og Karl tókust í hendur á sögulegum fundi á Írlandi. Í sömu ferð heimsótti prinsinn Mullaghmore og talaði um þann missi sem hann upplifði þegar Mountbatten var myrtur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×