Innlent

Katrín um sótt­kvíar­brot: „Við erum að herða eftir­lit“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í Víglínunni í dag.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í Víglínunni í dag. Einar Árnason

Þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra var spurð út í það í Víglínunni hvort ítrekuð dæmi um sóttkvíarbrot væru ekki tilefni til að endurskoða reglur á landamærunum sagði hún að verið væri að herða eftirlit með fólki.

„Við erum að herða eftirlitið núna með þeim sem eru að koma yfir landamærin og þeim sem eru líka skikkaðir í sóttkví hér innanlands. Þannig það er verið að herða eftirlit. Það er verið að hringja í fólk. Það er verið að kanna sérstaklega hverjar aðstæður fólk eru til sóttkvíar. Þannig þetta erum við allt að gera og við væntum þess að þetta skili árangri,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í Víglínunni.

Staðan gæti breyst mjög hratt

Stefnt er að því að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum þann 1. maí. Katrín segir litakóðunarkerfið ekkert annað en áhættumat.

„Við byggjum á því sem kallað er litakóðunarkerfi en leggjum svo okkar eigið mat á það kerfi. Áhættumat í raun og veru. Það er útfærslan sem við boðuðum að yrði unnið að. Við erum enn að vinna að þeirri útfærslu því eins og við vitum þá geta hlutirnir breyst mjög hratt. Ísland var grænt í síðustu viku á þessu korti. Staðan á því getur bara breyst mjög hratt núna eftir fréttir dagsins.“

Hún segir að eðli málsins samkvæmt sé alltaf áhættumat sem ráði för þegar kemur að faraldrinum.

Sunna Sæmundsdóttir, fréttamaður, ræddi við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í Víglínunni í dag.Einar Árnason

„Við tökum ekki ákvarðanir sem stangast á við stöðu faraldursins hvorki hér heima né erlendis.“

Katrín segir að það komi til greina að einungis farþegar frá grænum löndum fái að koma hingað til lands án þess að þurfa að sæta sóttkví.

Kemur þá mögulega til greina að þetta taki einungis til farþega frá grænum löndum?

„Ég get eiginlega ekki sagt til um það, það er ekki alveg tímabært að segja nákvæmlega hver útfærslan er. En það kemur algjörlega til greina já,“ sagði Katrín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×