Fótbolti

Dæmdur í tíu leikja bann fyrir rasisma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ondrej Kúdela (lengst til hægri) var í dag dæmdur í tíu leikja bann fyrir kynþáttaníð.
Ondrej Kúdela (lengst til hægri) var í dag dæmdur í tíu leikja bann fyrir kynþáttaníð. epa/Andrew Milligan

Knattspyrnusamband Evrópu hefur dæmt Ondrej Kúdela, leikmann Slavia Prag, í tíu leikja bann fyrir að beita Glen Kamara, leikmann Rangers, kynþáttaníði í leik liðanna í Evrópudeildinni 19. mars.

Undir lok leiksins sauð úr upp þegar Kúdela beitti Kamara kynþáttaníði. Hann viðurkenndi að hafa blótað Kamara en sagðist ekki hafa látið rasísk ummæli falla. UEFA féllst ekki á þær útskýringar hans.

Í leikmannagöngunum eftir leik réðst Kamara svo á Kúdela. Fyrir það fékk finnski landsliðsmaðurinn þriggja leikja bann.

Kúdela tekur fyrsta leikinn í banninu sínu út þegar Slavia Prag mætir Arsenal í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar annað kvöld.

Mikið gekk á í áðurnefndum leik Rangers og Slavia Prag. Kemar Roofe, framherji Rangers, fékk til að mynda rauða spjaldið fyrir fólskulegt brot á markverði Slavia Prag, Ondrej Kolár.

Kúdela, sem er 34 ára, hefur leikið með Slavia Prag síðan 2018. Hann á sex landsleiki fyrir Tékkland á ferilskránni.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.