Erlent

Harry kominn til Bretlands og mun dvelja í sóttkví fram að útför

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Menn velta því nú fyrir sér hvort Harry mun nota ferðina til að miðla málum eftir umdeilt viðtal hjónanna við Opruh Winfrey.
Menn velta því nú fyrir sér hvort Harry mun nota ferðina til að miðla málum eftir umdeilt viðtal hjónanna við Opruh Winfrey.

Harry Bretaprins er sagður vera kominn til Englands til að sækja útför afa síns. Filippus prins lést 9. apríl síðastliðinn en útför hans mun fara fram í kapellu St. Georgs við Windsor-kastala laugardaginn 17. apríl.

Talsmenn konungsfjölskyldunnar í Buckingham-höll staðfestu á laugardag að Harry myndi snúa aftur frá Bandaríkjunum til að verða viðstaddur athöfnina. Eiginkona hans, Meghan Markle, verður hins vegar eftir þar sem hún er kominn langt á leið með annað barn þeirra.

Prinsinn er sagður hafa flogið með British Airways frá Los Angeles í gær. Þá greinir The Sun frá því að lögregla hafi tekið á móti Harry á vellinum og ekið honum á brott í Range Rover. Hann er talinn hafa verið fluttur í Kensington-höll.

Þar mun hann dvelja í sóttkví, sem reglum samkvæmt á að vera tíu dagar. Harry mun hins vegar nýta sér undanþágu, sem kveður á um að einstaklingar megi yfirgefa dvalarstað sinn tímabundið af „mannúðarástæðum“. Útfarir falla þar undir.

Harry mun hafa þurft að skila neikvæðri niðurstöðu úr Covid-prófi áður en hann lagði af stað og þarf að taka tvö slík í Bretlandi, auk þess að gefa upp fast heimilisfang í sóttkví.

Samkvæmt Sky News verður hámarksfjöldi viðstaddra við útför Filippusar 30, samkvæmt sóttvarnareglum en samkvæmt áætlun sem var gerð áður en heimsfaraldurinn braust út var gert ráð fyrir að um 800 yrðu viðstaddir.

Forsætisráðherrann Boris Johnson hefur sagt að hann muni ekki mæta, til að taka ekki pláss frá fjölskyldumeðlimum. Elísabet og Filippus eiga fjögur börn og átta barnabörn, auk maka.

Drottningin hefur sagt fráfall eiginmannsins hafa skilið eftir stórt tómarúm.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.