Innlent

Upp­lýsingar um land­búnað og mat­væla­fram­leiðslu að­gengi­legar á einum stað

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði Mælaborð landbúnaðarins fyrir helgi.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði Mælaborð landbúnaðarins fyrir helgi. Vilhelm Gunnarsson

Mælaborð landbúnaðarins var opnað fyrir helgi. Um er að ræða rafrænan vettvang þar sem upplýsingar um landbúnað og matvælaframleiðslu á Íslandi eru gerðar aðgengilegar á einum stað. 

Stofnun mælaborðsins er hluti af samkomulagi ríkis og bænda við endurskoðun rammasamnings búvörusamninga en þar kemur fram að nauðsynleg þyki að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu m.a. vegna fæðuöryggis.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði Mælaborð landbúnaðarins fyrir helgi.

„Við erum búin að vinna að þessu í rúmt ár. Þetta er í grunnin tæki eða verkfæri til að tryggja yfirsýn yfir framkvæmd landbúnaðarstefnu eða mála landsins á hverjum tíma og er gríðarlega mikilvægt til að öðlast einhvers konar yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir landbúnaðarafurða í landinu,“ sagði Kristján Þór Júlíusson.

Dæmi um upplýsingar í mælaborðinu eru stuðningsgreiðslur til bænda, framleiðsla og innflutningur búvara - og tölfræðilegar upplýsingar um fjölda bænda og búfénaðar.

„Þetta á að geta gagnast öllum. Bæði stjórnvöldum, bændum, almenningi og fjölmiðlum til þess að byggja umræðu um landbúnað á raunupplýsingum,“ sagði Kristján Þór.

Kristján Þór segir að um þróunarverkefni sé að ræða og megi því búast við stöðugum endurbótum. Í fyrsta áfanga er lögð áhersla á yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir landbúnaðarafurða hér á landi, auk stuðnings við bændur samkvæmt búvörusamningum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.