Innlent

Standa í því að inn­heimta laun leik­skóla­starfs­manna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Viðar Þorsteinsson er framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson er framkvæmdastjóri Eflingar. Vísir/Vilhelm

Stéttarfélagið Efling innheimti tæpar 35 milljónir króna fyrir hönd 103 Eflingarfélaga vegna vangreiddra launa á fyrstu þremur mánuðum ársins að því er kemur fram í fyrstu ársfjórðungsskýrslu Kjaramálasviðs fyrir yfirstandandi ár.

Efling er með fleiri en fimm opnar launakröfur á hendur þremur aðilum en þar á meðal er leikskóli í Breiðholti.

Flestar launakröfur Eflingar á fyrsta ársfjórðungi eru á hendur X-JB byggingarfélagi. Þær eru sjö talsins og upp á 7,6 milljónir króna.

„Upphæðin sýnir mikilvægi þeirrar þjónustu sem kjaramálasvið og lögmenn Eflingar veita félagsmönnum sem verða fyrir barðinu á launaþjófnaði,“ segir í tilkynningu á vef Eflingar.

Laun ekki hækkuð um áramót

Fram kemur í ársfjórðungsskýrslu Eflingar að X-JB byggingarfélag hafi áður komið við sögu hjá Eflingu. Ellefu virkar kröfur séu opnar upp á samtals 13,1 milljón króna.

„Kröfurnar hafa allar verið afhentar lögmönnum Eflingar til frekari innheimtu þar sem enginn viðbrögð bárust frá fyrirtækinu.“

Bakaríið og veisluþjónustan Cooking Harmony og leikskólinn Vinaminni í Breiðholti hafa fengið fimm launakröfur frá Eflingu.

„Leikskólinn Vinaminni hefur áður komið við sögu hjá Eflingu með sambærileg mál og nú eru til meðhöndlunar hjá Eflingu. Leikskólinn hækkaði ekki laun í samræmi við ákvæði kjarasamninga um áramótin.“

Fækkun krafna komi ekki til af góðu

Þar segir að nýskráðum launakröfum á tímabilinu fækki miðað við fyrri ársfjórðunga, sem skýrist af hruni ferðaþjónustugeirans sökum kórónaveirufaraldursins.

„Fækkun krafna kemur því ekki til af góðu og staðfestir þátt ferðaþjónustunnar í brotastarfsemi á vinnumarkaði. Meðalupphæð hverrar launakröfu fer hækkandi og nemur nú um tvöföldum meðal-mánaðarlaunum Eflingarfélaga.“

Efling segir tölur ársfjórðungsins sýna að erlendir félagsmenn séu hlutfallslega líklegri en aðrir Eflingarfélagar til að þurfa að leita aðstoðar Eflingar vegna vangreiddra launa. Félagsmenn af íslenskum uppruna séu um helmingur félagsmanna en eru aðeins tæpur fjórðungur af þeim sem þurfa að leita aðstoðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×