Innlent

Múlanum ætlað að fjölga Norðfirðingum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað.
Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað. Einar Árnason

Norðfirðingar vonast til að heimta aftur brottflutta íbúa til baka og fá fjölda nýrra starfa með skrifstofuklasa og nýsköpunarmiðstöð sem búið er að opna í Neskaupstað.

Í fréttum Stöðvar 2 var greint frá nýju hlutverki húss sem áður var hverfisverslun í austasta hluta Neskaupstaðar. Þann 1. febrúar síðastliðinn, eftir stækkun og endurbætur, var það opnað sem skrifstofuklasi og kallað Múlinn, eftir Hellisfjarðarmúla, sem blasir við bæjarbúum handan Norðfjarðar.

Múlinn er í austasta hluta Neskaupstaðar.Einar Árnason

Þegar starfa milli tuttugu og þrjátíu manns í húsinu frá tíu ólíkum fyrirtækjum og stofnunum. Þar eru til dæmis Deloitte endurskoðendur, Stapi lífeyrissjóður, Náttúrustofa Austurlands, Austurbrú og rannsóknarstofur Matís en eigandi hússins er Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað.

„Við búumst við að þetta verði svona suðupottur. Nú þegar hafa bæst við þrjú ný störf í bæinn út af þessari byggingu okkar,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN.

Sameiginleg kaffistofa Múlans.Einar Árnason

Í húsinu gildir sú regla að bannað er að hafa kaffikönnu inni í eigin rými. Allir verða að hittast á kaffistofunni.

„Það verður til þess að fólk úr mismunandi greinum fer að tala saman. Hugsanlega verður þá til verkefni úr því og þá nýsköpun og þróun,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.Einar Árnason

Enn eru lausar skrifstofur og hægt er að leigja sér stakt borð.

Þeir Guðmundur og Jón Björn lýsa því hvernig Múlinn skapar tækifæri fyrir þá sem vilja flytja út á land, ekki síst brottflutta Norðfirðinga, til að flytja störf án staðsetningar með sér.

Athygli vekur að það er einn stærsti eigandi Síldarvinnslunnar stendur að þessu.

„Það er oft talað um það á hátíðarstundum að arðurinn af auðlindinni eigi að renna til þjóðarinnar. Það er það sem við erum að gera hjá SÚN. Við erum að nýta arðinn af hlutabréfunum í Síldarvinnslunni til uppbyggingarverkefna í Neskaupstað,“ segir Guðmundur.

Frá Neskaupstað.Einar Árnason

„Það er ekki hlaupið að því að reisa svona hús. Við erum heppin að Samvinnufélagið hér er með það að markmiði að styrkja samfélagið,“ segir bæjarstjórinn.

„Svo getum við líka byggt við. Og við höfum fullan hug á því. Ég hef alltaf sagt að þetta er bara fyrsti áfangi,“ segir framkvæmdastjóri SÚN.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×