Nú er verið að bólusetja eldri borgara í stórum stíl í Laugardalshöll og gengur verkið afar vel að sögn Jórlaugar Heimisdóttur verkefnastjóra.
Samkvæmt heimildum Vísis hafa verið brögð að því að fólk sem hefur verið boðað til komu á morgun hafi freistað þess að mæta fyrr, eða í dag og fá bólusetninguna nú. Ástæðan er sú að spurst hafið að í dag sé verið að bólusetja með Pfizer en á morgun verði bólusett með AstraZeneca-bóluefninu.
Jórlaug segir alvanalegt að fólk ruglist á dagsetningu og kannast ekki við neina dramatík í tengslum við bólusetninguna nú í dag. En rétt sé að nú sé bólusett með Pfizer en að á morgun verði bólusett með AstraZeneca. Ástæðan fyrir því er sú að efnið barst ekki til landsins fyrr en í gær.
Fólk ræður því ekki sjálft með hvaða efni það er bólusett en samkvæmt þessu sækist fólk fremur eftir því að fá Pfizer en AstraZeneca. Hvorki náðist í Kamillu Jósepsdóttir lækni né Önnu Maríu Snorradóttur hjá Landlækni sem stýrir bólusetningunum til að spyrja nánar út í það hvernig þessu er háttað.