Innlent

Tugir þúsunda bóluefnaskammta væntanlegir

Kjartan Kjartansson skrifar
Veruleg aukning verður nú í afhendingu bóluefna gegn kórónuveirunni til Íslands.
Veruleg aukning verður nú í afhendingu bóluefna gegn kórónuveirunni til Íslands. Vísir/Vilhelm

Von er á tæplega 65.300 bóluefnaskömmtum frá fjórum framleiðendum til landsins í þessum mánuði. Mánaðarleg afhending á bóluefni eykst um 160% í þessum mánuði borið saman við fyrstu þrjá mánuði ársins.

Í nýjasta yfirliti heilbrigðisráðuneytisins um áætlanir framleiðenda bóluefna gegn kórónuveirunni um vikulega afhendingu kemur fram að auk þeirra fleiri en 65.000 skammta sem eru væntanlegir í þessum mánuði sé von á 117.000 skömmtum af bóluefni Pfizer í maí og júní.

Af skömmtunum sem eiga að berast í apríl er meirihlutinn frá Pfizer. Fleiri en 9.300 skammtar eru væntanlegir í hverri viku í þessum mánuði. Síðustu vikuna í apríl eiga einnig hátt í 10.000 skammtar af bóluefni AstraZeneca að berast. Moderna og Janssen senda smærri skammta.

Í lok nýliðins ársfjórðungs hafði Ísland fengið samtals um 75.000 bóluefnaskammta frá því að bólusetningar gegn COVID-19 hófust hér á landi 29. desember, eða að meðaltali tæplega 25.000 skammta á mánuði. Mánaðarleg afhending hefur því aukist um 160% miðað við að í vændum eru tæplega 65.300 skammtar í apríl, að því er segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

Pfizer er eina fyrirtækið sem hefur staðfest afhendingaráætlun til lengri tíma. Samkvæmt henni eiga 37.000 skammtar að berast til Íslands í þessum mánuði, 54.000 skammtar í maí og 63.000 skammtar í júní. Þessi auknu afköst í afhendingu bóluefnisins er rakin til vaxandi framleiðslugetu fyrirtækisins.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, gerir ráð fyrir að um 130.000 manns verði fullbólusettir fyrir lok júní. Á upplýsingafundi vegna kórónuveirufaraldursins í dag sagði hann að um 15.000 manns yrðu bólusettir í vikunni.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.