Innlent

Rýming gengið vel þó fólk hafi „að­eins maldað í móinn“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Aukamannskapur björgunarsveita- og lögreglufólks var kallaður út til að sinna rýmingu á svæðinu.
Aukamannskapur björgunarsveita- og lögreglufólks var kallaður út til að sinna rýmingu á svæðinu. Vísir/Vilhelm

Rýming viðbragðsaðila í og við Geldingadali hefur gengið vel, að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns á Suðurnesjum. Nokkur hundruð manns hafi verið á svæðinu þega ný sprunga opnaðist skammt frá upphaflegu gossvæði í hádeginu.

„Á bílastæðunum eru þetta 150 til 170 bílar, tveir eða þrír í hverjum bíl. Það er nokkurn veginn heildarfjöldi fólks sem hefur verið þarna,“ segir Gunnar í samtali við fréttastofu.

Hann segir að fólk sem var á svæðinu þegar rýming hófst ætti að vera langt komið að bílastæðinu við upphaf gönguleiðarinnar, ef það væri ekki þegar komið þangað.

Hann segir þó að fólk geti alltaf farið fram hjá þeim sem sinna rýmingu. Því sé ekki útilokað að enn sé fólk, annað en vísindamenn og viðbragðsaðilar, á svæðinu.

„Það er bara verið að reyna að fara yfir svæðið og kemba það,“ segir Gunnar og bætir því við að langflestir hafi tekið rýmingunni vel.

„Þegar er verið að stugga við fólki, þegar við höfum byrjað, þá hefur aðeins verið maldað í móinn en ekkert til þess að tala um,“ segir Gunnar.

Í fréttinni hér að neðan má fylgjast með nýjustu vendingum frá gossvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×