Sprungan er talin vera um fimm hundruð metra löng en áfram er verið að reyna að ná utan um stöðuna.
„Þetta er greinilega byrjun á nýjum kafla í þessari kaflaskiptu framhaldssögu sem hefur verið í gangi núna síðustu fimmtán mánuðina,“ segir hann og vísar þar til hinna miklu jarðhræringa sem hafa verið á Reykjanesskaganum. „Þetta var vissulega einn af þeim möguleikum sem var reiknað með að gæti gerst. Kannski ekki sá líklegasti en með í spilinu,“ bætir Páll við.
„Þetta litla gos sem er búið að vera í gangi er frekar máttlítið gos. Allur aðdragandinn að því var í engu samræmi við þetta litla gos. Þannig að það var greinilega eitthvað miklu, miklu meira í spilunum og þetta er bara einn kaflinn í viðbót í þessum söguþræði.“
Þannig að kaflarnir gætu orðið fleiri?
„Það er næstum því öruggt. Þeir verða fleiri og sennilega lengi í gangi. Þetta er þegar búið að standa í rúmlega fimmtán mánuði og ekkert sem bendir til þess að þetta sé neitt að hætta.“