Erlent

Tugþúsundir heilbrigðisstarfsmanna þjást af langvarandi Covid

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um 122 þúsund heilbrigðisstarfsmenn innan opinberu heilbrigðisþjónustunnar segjast þjást af langvarandi Covid.
Um 122 þúsund heilbrigðisstarfsmenn innan opinberu heilbrigðisþjónustunnar segjast þjást af langvarandi Covid. epa/Andy Rain

Að minnsta kosti 122 þúsund starfsmenn opinberu heilbrigðisþjónustunnar (NHS) þjást af langvarandi áhrifum Covid-19, samkvæmt hagstofu Bretlands. Stjórnendur NHS eru uggandi vegna áhrifa þessa á mönnun.

Samkvæmt hagstofunni er talið að um 1,1 milljón Breta þjáist af langvarandi Covid. 

Ef fjöldanum er skipt eftir störfum kemur í ljós að heilbrigðisstarfsfólk er fjölmennasti hópurinn sem þjáist af eftirköstum sjúkdómsins en kennarar eru næststærsti hópurinn, um 114 þúsund talsins.

Samkvæmt Guardian er ástandið að koma niður á heilbrigðisþjónustunni þar sem margir þeir sem þjást af langvarandi Covid geta aðeins unnið í hlutastarfi, líður ekki nógu vel til að geta sinnt hefðbundnum skyldustörfum og/eða þurfa að taka orlof þar sem þá verkjar, eru uppgefnir eða of óskýrir í hugsun til að geta unnið.

Helena McKeown, hjá bresku læknasamtökunum, segir ástandið skapa mikið álag hjá opinberu heilbrigðisþjónustunni, sem var undirmönnuð áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Um 30 þúsund heilbrigðisstarfsmenn séu nú þegar í veikindaleyfi og ef þeim fjölgi muni það hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér.

Tvær konur sem stofnuðu Facebook-hóp fyrir lækna sem þjást af langvarandi Covid segja þá upplifa skömm og sektarkennd yfir því að valda auknu álagi hjá kollegum og taka ekki virkan þátt í „baráttunni gegn Covid“.

Þá upplifðu þeir einnig reiði yfir því að hafa líklegast smitast í vinnunni en fá takmarkaðan stuðning í kjölfarið. Sumum hefði til dæmis verið sagt upp störfum vegna langvarandi veikinda.

Umfjöllun Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.