Erlent

Frakkar herða aftur á aðgerðum gegn veirunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona fylgist með Macron forseta kynna hertar sóttvarnaaðgerðir í sjónvarpsávarpi. Heimilishundurinn er síður áhugasamur.
Kona fylgist með Macron forseta kynna hertar sóttvarnaaðgerðir í sjónvarpsávarpi. Heimilishundurinn er síður áhugasamur. Vísir/EPA

Skólar í Frakklandi verða lokaðir næstu þrjár vikurnar í það minnsta samkvæmt nýjum og hertum sóttvarnaaðgerðum sem Emmanuel Macron forseti kynnti í dag. Varaði hann við því að yfirvöld gætu misst tökin á kórónuveirufaraldrinum yrði ekki gripið til aðgerða strax.

Um 5.000 manns eru nú á gjörgæsludeildum franskra sjúkrahúsa með Covid-19. Smituðum fer nú fjölgandi þar aftur eins og í nokkrum öðrum Evrópuríkjum. Dregið hefur verið úr annarri þjónustu á sjúkrahúsum í París og nágrenni vegna álagsins.

Öllum verslunum sem eru ekki taldar nauðsynlegar verður gert að loka frá og með laugardegi og fólki verður bannað að ferðast lengra en tíu kílómetra að heiman án gildrar ástæðu. Sóttvarnaaðgerðir sem tóku gildi í ákveðnum landshlutum fyrr í þessum mánuði gilda nú víðar um landið.

„Allir ættu að takmarka samneyti sitt við annað fólk,“ sagði Macron í sjónvarpsávarpi í dag. Landsmenn fengju páskahelgina til þess að koma sér þangað sem þeir vilja eyða takmarkanatímabilinu.

Lýsti Macron ástandi faraldursins sem „viðkvæmu“ og að aprílmánuður ætti eftir að skipta sköpum.

„Við missum stjórnina ef við látum ekki til skarar skríða núna,“ sagði forsetinn.

Franska þingið á enn eftir að samþykkja aðgerðir Macron. Greidd verða atkvæði um þær á morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Skólar munu bjóða upp á fjarkennslu frá og með næstu viku en börn framlínustarfsfólks fær áfram að mæta í tíma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.