Fótbolti

Er hinn 17 ára gamli Belling­ham lausnin á miðju­vand­ræðum Eng­lands?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bellingham hefur nýtt tækifærin með landsliðinu vel til þessa.
Bellingham hefur nýtt tækifærin með landsliðinu vel til þessa. Julian Finney/Getty Images

Jude Bellingham lék vel með Englendingum í þægilegum 5-0 sigri á San Marínó í undankeppni HM á dögunum. Hann hefur leikið vel með Borussia Dortmund það sem af er leiktíð og talið er að Bellingham gæti verið lausn á miðjuvandræðum enska landsliðsins.

Sigur Englands á San Marínó var svokallaður skyldusigur en frammistaða Jude Bellingham stal fyrirsögnunum. Miðjumaðurinn var tvívegis nálægt því að skora gegn San Marínó en hefði það tekist hefði hann orðið yngsti markaskorari í sögu enska landsliðsins.

Gareth Southgate, þjálfari Englands, ákvað að velja miðjumanninn unga í A-landsliðið frekar en að láta hann vera lykilmann í U-21 árs landsliðinu.

Southgate virðist mjög sáttur með frammistöðu og hugarfar Bellingham til þessa. Sömu sögu er að segja af Roy Keane og sá veit sitthvað um hvernig það er að spila á miðri miðjunni.

„Bellingham virðist hinn fullmótaði miðjumaður. Hann er mjög yfirvegaður á boltann, líður vel að sækja fram af miðjunni og var almennt mjög góður í leiknum,“ sagði Keane um frammistöðu Bellingham.

Southgate er í ákveðnum vandræðum þegar kemur að því hvaða tveir leikmenn munu sitja fyrir framan ensku vörnina á EM í sumar. Jordan Henderson – fyrirliði Liverpool – er að glíma við meiðsli og ef hann verður ekki klár er ljóst að það er laust sæti í liðinu.

„Á þessu svæði vallarins – þó við séum sáttir með alla í kvöld – líður okkur eins og við séum frekar fáliðaðir,“ sagði Southgate að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×