Erlent

Enn skjóta Norðurkóreumenn eldflaugum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fréttir með myndum af fyrri eldflaugatilraunum Norður-Kóreu í sjónvarpsverslun í Suður-Kóreu.
Fréttir með myndum af fyrri eldflaugatilraunum Norður-Kóreu í sjónvarpsverslun í Suður-Kóreu. AP/Lee Jin-man

Bandarísk og japönsk stjórnvöld segja að einræðisstjórnin í Norður-Kóreu hafi skotið tveimur skotflaugum í Japanshaf þrátt fyrir að henni sé bannað að gera slíkar tilraunir. Þetta er í fyrsta skipti sem Norður-Kórea gerir eldflaugatilraun af þessu tagi eftir að Joe Biden varð forseti Bandaríkjanna.

Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því Norður-Kóreu gerði tilraun með eldflaugar í Gulahafi. Þær voru ekki skotflaugar og falla ekki undir bann öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við tilraunum Norður-Kóreu með banvæn vopn. Þá sagði Biden að tilraunin væri ekki ögrun við Bandaríkin.

Bæði Japan og Suður-Kórea hafa fordæmt skotflaugaskotið. Yfirstjórn bandaríska hersins á Kyrrahafi segir tilraunina nú sýna þá ógn sem nágrannaríkjum Norður-Kóreu og alþjóðasamfélaginu stafi af ólöglegu vopnabrölti landsins, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Biden Bandaríkjaforseti hefur ekki tjáð sig um nýjustu eldflaugatilraunirnar sem virðast klárt brot á ályktun öryggisráðsins. Forveri hans, Donald Trump, sá í gegnum fingur sér með sambærilegar tilraunir Norður-Kóreu árið 2019.

Enn hafa engin formleg samskipti átt sér stað á milli Bandaríkjastjórnar og einræðisstjórnar Kim Jong-un í Pjongjang.


Tengdar fréttir

Erindrekar í Malasíu reknir heim til Norður-Kóreu

Erindrekar Norður-Kóreu hafa yfirgefið sendiráð ríkisins í Malasíu og setja stefnuna heim á leið eftir að ríkin tvö slitu opinberum samskiptum. Það var gert eftir að Malasía framseldi grunaðan glæpamann frá Norður-Kóreu til Bandaríkjanna.

Ætla ekki að tala við Bandaríkin án ívilnana

Yfirvöld í Norður-Kóreu segjast ekki ætla að ræða við Bandaríkjamenn um mögulega afvopnun, fyrr en Bandaríkin hafa látið af „fjandsamlegri“ stefnu sinni gagnvart einræðisríkinu. Meðlimir ríkisstjórnar Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, hafa reynt að ná sambandi við kollega sína í Norður-Kóreu frá því í febrúar en án árangurs.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.