Innlent

Þrjátíu í sóttkví vegna smits hjá gesti World Class Lauga

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Tækjasalur World Class Laugum.
Tækjasalur World Class Laugum. Vísir/Vilhelm

Þrjátíu einstaklingar sem sóttu líkamsræktarstöð World Class um helgina hafa verið sendir í sóttkví eftir að gestur stöðvarinnar greindist smitaður af covid-19 á laugardaginn. Fólkið var allt við æfingar í sóttvarnarhólfi B í tækjasal líkamsræktarstöðvarinnar. Þetta staðfestir Guðbjörn Gunnarsson, stöðvarstjóri World Class Laugum, í samtali við Vísi.

Guðbjörn segir að þegar upp komst um smitið hafi allir hinir 29 fengið boð um að fara í sóttkví.

Þá segir hann fréttir dagsins um hertar aðgerðir vera vonbrigði en að World Class muni leggja sitt af mörkum í baráttunni við faraldurinn. Lokun líkamsræktarstöðva er meðal þeirra aðgerða sem kveðið er á um í reglugerð sem kynnt var í dag og tekur gildi á miðnætti og gildir næstu þrjár vikurnar.

Leggja sitt af mörkum „fyrir þjóðina“

„Við náttúrlega erum öll saman í liði í þessu. En við náttúrlega hefðum bara viljað láta loka öllu, bara öllu á landinu skilurðu. Það er svolítið glatað að fara í sömu aðgerðir og í október í staðinn fyrir að setja bara allt í lás,“ segir Guðbjörn.

„Við erum mjög ósáttir við það að það skuli ekki vera öllu lokað. Ég myndi vilja sjá bara öllu sem hægt væri að loka nema matvörubúðum, bara öllum veitingastöðum og öllu. Þannig að við séum saman í þessu. En við viljum spila með og taka á okkur högg fyrir þjóðina.“

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð til að árétta að ekki sé vitað til þess að fólk hafi smitast af einstaklingnum í líkamsræktarstöðinni. Þeir gestir sem voru sendir í sóttkví fá niðurstöðu úr seinni sýnatöku á laugardag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×