Fótbolti

500. landsleikurinn framundan: Átta hafa átt leikjametið frá árinu 1953

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson í leik með íslenska landsliðinu.
Rúnar Kristinsson í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Vladimir Rys

Rúnar Kristinsson er sá eini sem hefur spilað yfir hundrað landsleiki fyrir Íslands en það gæti breyst á árinu 2021.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu spilar leik númer 500 í Þýskalandi annað kvöld og Vísir ætlar að skoða nokkur met landsliðsins í þessu fyrstu 499 leikjum. Rúnar Kristinsson er handhafi leikjamets A-landsliðs karla.

Rúnar Kristinsson hefur getað kallað sig leikjahæsta leikmanns íslenska A-landsliðsins í meira en tvo áratugi og oftar en nokkur annar.

Frá árinu 1953 þá hafa átta menn átt landsleikjametinu en fyrir þann tíma deildu oft margir metinu á fyrstu árum landsliðsins. Karl Guðmundsson spilaði tíu fyrstu A-landsleikina og átti metið þegar Ríkharður Jónsson tók það af honum sumarið 1955.

Rúnar Kristinsson hefur nú haldið leikjametinu síðan að hann lék sinn 77. landsleik í Þórshöfn í Færeyjum 18. ágúst. Hann jafnaði þar met Guðna Bergssonar og hefur síðan átt það einn síðan 8. september 1999.

Rúnar bætti metið í 27 landsleikjum í röð allt þar til að hann spilaði sinn 104. og síðasta landsleik 18. ágúst 2004.

Rúnar er einnig búinn að slá metið yfir að hafa haldið landsleikjametinu lengst. Ríkharður Jónsson hélt metinu frá því að hann jafnaði met Karls Guðmundssonar 24. ágúst 1954 þar til að Matthías Hallgrímsson tók það af honum 3. september 1975. Ríkharður hélt því metinu í 21 ár og 10 daga. Í dag hefur Rúnar haldið metinu í 21 ár og rúma 7 mánuði.

Það eru þó menn farnir að nálgast Rúnar í fyrsta sinn í langan tíma. Ragnar Sigurðsson er nú sjö leikjum á eftir honum, Birkir Sævarsson vantar níu leiki og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er þrettán leikjum frá meti Rúnars. Allir þrír eru í landsliðshópnum í þessum landsleikjaglugga.

Síðustu handhafar landsleikjamets A-landsliðs karla:

  • Rúnar Kristinsson frá 1999
  • Guðni Bergsson 1996, 1997-1999
  • Ólafur Þórðarson 1996-1997
  • Atli Eðvaldsson 1991-1996
  • Marteinn Geirsson 1979-1991
  • Matthías Hallgrímsson 1975-1979
  • Ríkharður Jónsson 1954-1975
  • Karl Guðmundsson 1946-1955

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×