Fótbolti

„Eiður, þú ert í þjálfararteyminu núna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen freistaðist til að vera með á æfingunni í gær.
Eiður Smári Guðjohnsen freistaðist til að vera með á æfingunni í gær. Vísir/Vilhelm

Það voru ekki bara leikmenn karlalandsliðsins í knattspyrnu sem tóku þátt í æfingunni í Düsseldorf í Þýskalandi í gær.

Eiður Smári Guðjohnsen er nú aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu en eins og allir vita þá er þarna á ferðinni einn allra besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi.

Eiður Smári er staddur í Þýskalandi í sínu fyrsta verkefni sem aðstoðarþjálfari íslenska A-landsliðsins en hann er í þjálfarateyminu með Arnari Þór Viðarssyni og Lars Lagerbäck.

Framundan er leikur á móti Þýskalandi sem er fyrsti leikurinn í undankeppni HM 2022.

Eiður Smári er auðvitað stór fyrirmynd hjá gullkynslóð íslenska liðsins enda langbesti leikmaður landsliðsins þegar þeir voru að alast upp.

Eiður Smári er hættur að spila fótbolta en kitlar ennþá greinilega í tærnar að vera með. Það sást á æfingu liðsins í gær.

Twitter síða Knattspyrnusambands Íslands, sem tjáir sig á ensku, skaut aðeins á aðstoðarþjálfarann í færslu.

„Já Eiður, við vitum að þú er ennþá með galdrana í skónum en þú ert í þjálfararteyminu núna,“ sagði í færslunni hér fyrir ofan.

Það mátti líka sjá myndband af Eiði Smára á æfingunni og þar var Arnar Þór Viðarsson líka að sýna smá takta.

„Eru þeir þjálfarar eða leikmenn? Þegar þeir stíga inn á grasið þá standast þeir stundum ekki freistinguna,“ sagði í færslunni á Twitter síðu KSÍ.

Myndbandið er hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×