Fótbolti

Ísland mætir Ítalíu í apríl

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland leikur í lokakeppni EM sumarið 2022 en undankeppni HM 2023 á að hefjast í haust.
Ísland leikur í lokakeppni EM sumarið 2022 en undankeppni HM 2023 á að hefjast í haust. vísir/Vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mun leika gegn Ítalíu í fyrsta leik sínum undir stjórn Þorsteins Halldórssonar. Leikurinn fer fram ytra.

Liðin munu mætast 13. apríl en samkvæmt vef KSÍ standa vonir til þess að leiknir verði tveir leikir í þessum „landsleikjaglugga“.

Þorsteinn tók við þjálfun Íslands í lok janúar og til stóð að fyrstu leikirnir undir hans stjórn yrðu á sterku æfingamóti í Frakklandi í febrúar. Ísland hætti hins vegar við mótið vegna vandkvæða tengdum kórónuveirufaraldrinum.

Ísland og Ítalía hafa fimm sinnum mæst og hefur Ísland unnið einu sinni, í undankeppni HM árið 2001. Tvisvar hafa liðin gert jafntefli og tvisvar hefur Ítalía unnið. Liðin mættust síðast í Algarve-bikarnum árið 2007 þar sem Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eina mark Íslands, í 2-1 tapi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×