Fótbolti

„Sem betur fer hentu Jói og Siggi mér á miðjuna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Teitur Þórðarson lék sjö af níu leikjum Íslands í undankeppni EM U-21 árs liða.
Stefán Teitur Þórðarson lék sjö af níu leikjum Íslands í undankeppni EM U-21 árs liða. vísir/bára

Stefán Teitur Þórðarson segir að það hafi ekki alveg verið í kortunum að hann myndi spila sem miðjumaður í lokakeppni EM þegar hann lék sem framherji með ÍA í næstefstu deild.

Eftir að hafa leikið í fremstu víglínu framan af ferlinum færðu þjálfarar ÍA, þeir Jóhannes Karl Guðjónsson og Sigurður Jónsson, Stefán Teit aftar og á miðjuna fyrir tveimur árum. Sú breyting gaf góða raun, bæði fyrir ÍA og ekki síst fyrir Stefán Teit sjálfan.

„Nei, ég alveg sagt það að ég hafði ekki trú á því að ég myndi spila sem miðjumaður þegar ég var framherji með ÍA í Inkasso-deildinni,“ sagði Skagamaðurinn á fjölmiðlafundi í Györ í Ungverjalandi í dag.

„En sem betur fer hentu Jói og Siggi mér á miðjuna og það var mjög gott,“ bætti Stefán Teitur við.

Hann skoraði átta mörk í sautján leikjum með ÍA í Pepsi Max-deildinni í fyrra en gekk um haustið í raðir Silkeborg í Danmörku. Hann unir hag sínum vel þar og segist hafa bætt sig mikið.

„Mér finnst ég hafa tekið mörg skref fram á við í öllu sem tengist mínum leik og vonandi heldur það áfram. Vonandi get ég tekið fleiri skref áfram á þessu móti,“ sagði Stefán Teitur.

Silkeborg er í 2. sæti dönsku B-deildarinnar og er á leið í úrslitakeppni um sæti í úrvalsdeildinni. Stefán Teitur hefur leikið tólf deildarleiki með Silkeborg á tímabilinu, skoraði eitt mark og lagt upp tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×