Innlent

Ætti að vera í lagi að fara að gos­stöðvunum fyrri part dags

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjöldi fólks lagði leið sína að gosstöðvunum um helgina.
Fjöldi fólks lagði leið sína að gosstöðvunum um helgina. Vísir/Vilhelm

Eins og veðurspáin er núna þá ætti að vera í lagi að fara að gosstöðvunum fyrri partinn í dag en ekki er mælt með því að fólk sé mikið á ferðinni seinni partinn í dag, það er eftir klukkan fjögur, eða þá að leggja af stað seinni partinn að svæðinu vegna hættu á gasmengun.

Þetta segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. Ástæðan fyrir því að ekki er ráðlagt að vera á svæðinu seinni partinn er að það á að lægja svolítið vel.

„Og ef vindur fer undir fimm metra á sekúndu á svæðinu þá eru miklar líkur á að það geti safnast vel fyrir í dældinni þarna,“ segir Bryndís.

Hún leggur áherslu á að um spá sé að ræða, spurningin sé svo hvort hún gangi eftir.

„Ef fólk myndi ekki fara niður í dalinn þá gæti sloppið að vera uppi á hryggjunum en maður þyrfti að hafa varann á,“ segir hún. Þannig ætti fólk ekki að fara niður að hrauninu heldur horfa niður á gosið af hryggjunum í kring.

Aðspurð um stöðuna næstu daga segir Bryndís að miðað við spána sé morgundagurinn ekki alveg nógu góður; hann líti svipað út og seinni parturinn í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×