Fótbolti

Burðarstólparnir í U-21 árs liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
u21-2

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri hefur leik á EM á fimmtudaginn. Vísir fór yfir fimm burðarstólpa í liðinu.

Um er að ræða leikmenn sem hafa leikið mikið með landsliðinu að undanförnu og voru í lykilhlutverki í undankeppninni.

Ísland endaði í 2. sæti í sínum riðli í undankeppninni. Íslenska liðið komst í lokakeppnina sem eitt þeirra liða sem var með bestan árangur liðanna í 2. sæti riðlanna í undankeppninni. Íslendingar unnu sex af níu leikjum sínum og töpuðu þremur. Íslandi var svo dæmdur 3-0 sigur í lokaleiknum gegn Armeníu.

Willum Þór Willumsson, miðjumaður

Willum Þór skorar í 3-0 sigri Íslands á Lúxemborg í fyrsta leik undankeppninnar.vísir/bára

Lék alla níu leiki Íslands í undankeppninni og skoraði þrjú mörk. Hefur venjulega leikið vinstra megin á þriggja manna miðju með U-21 árs landsliðinu. Willum lék sinn fyrsta og eina A-landsleik gegn Eistlandi í janúar 2019.

Eftir frábært tímabil með Breiðabliki 2018 þar sem hann var valinn besti ungi leikmaður Pepsi Max-deildarinnar keypti BATE Borisov Willum. Hann varð hvít-rússneskur bikarmeistari með liðinu í fyrra.

Yngri bróðir Willums, Brynjólfur Andersen, er einnig í EM-hópi U-21 árs landsliðsins. Hann lék átta leiki og skoraði eitt mark í undankeppninni.

Klippa: Mörk Willums Þórs með U-21 árs landsliðinu

Sveinn Aron Guðjohnsen, framherji

Mark Sveins Arons úr vítaspyrnu tryggði Íslandi sigur á Írlandi í Víkinni.vísir/vilhelm

Markahæsti leikmaður íslenska liðsins í undankeppninni með fimm mörk. Sveinn Aron skoraði meðal annars sigurmörk Íslands í heimaleikjunum gegn Írlandi og Svíþjóð. Þá skoraði hann einnig í 1-2 sigrinum á Írum á útivelli en með honum tryggðu Íslendingar sér EM-sætið. 

Sveinn Aron, sem er stór og sterkur framherji með öflugan vinstri fót, hefur alls leikið fimmtán leiki fyrir U-21 árs landsliðið og skorað sex mörk. Hann var valinn í fyrsta sinn í A-landsliðið fyrir leikinn gegn Englandi síðasta haust en kom ekki við sögu í leiknum.

Sveinn Aron er á láni hjá OB í Danmörku frá ítalska úrvalsdeildarliðinu Spezia en hefur fengið fá tækifæri með OB í vetur. Sveinn Aron hefur einnig leikið með báðum Kópavogsliðunum, HK og Breiðabliki, Val og á láni hjá Ravenna á Ítalíu.

Klippa: Mörk Sveins Arons með U-21 árs landsliðinu

Jón Dagur Þorsteinsson, kantmaður

Jón Dagur hefur leikið fyrir íslenska landsliðið í öllum aldursflokkum, alls 47 leiki.vísir/vilhelm

Líkt og Willum og Sveinn Aron er Jón Dagur fæddur 1998 og úr Kópavoginum. Fór ungur til Fulham en var lánaður til Vendsyssel tímabilið 2018-19. Hann gekk í raðir AGF 2019. Hann hefur verið í nokkuð stóru hlutverki hjá liðinu og fengið lof fyrir frammistöðu sína.

Landsliðsþjálfarasonurinn lék sjö af níu leikjum Íslands í undankeppni EM og skoraði tvö mörk. 

Jón Dagur hefur einnig verið með annan fótinn í A-landsliðinu og leikið sex leiki fyrir það og skorað eitt mark. Hann verður fyrirliði íslenska liðsins á EM.

Klippa: Mörk Jóns Dags fyrir U-21 árs landsliðið

Alex Þór Hauksson, miðjumaður

Ísland - Lúxemborg, U21 karla, EM 21 riðlakeppni. Knattspyrna, fótbolti.Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Álftnesingurinn lék átta leiki í undankeppninni og er íslenska liðinu gríðarlega mikilvægur. Leikur jafnan aftastur á miðjunni og gegnir stóru hlutverki bæði í vörn og sókn.

Alex var keyptur til sænska B-deildarliðsins Öster í vetur eftir að hafa verið lykilmaður hjá Stjörnunni í fjögur tímabil. Hefur leikið 72 leiki í efstu deild og varð bikarmeistari með Stjörnunni 2018. Alex var fyrirliði Stjörnunnar í fyrra þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs.

Alex hefur leikið þrjá vináttulandsleiki með A-landsliðinu, einn árið 2019 og tvo 2020.

Patrik Sigurður Gunnarsson, markvörður

Patrik Sigurður Gunnarsson stendur milli stanganna hjá íslenska liðinu á EM.GETTY/HARRY MURPHY

Lék átta af níu leikjum Íslands í undankeppninni og hélt marki sínu þrisvar sinnum hreinu.

Patrik er uppalinn hjá Breiðabliki en fór ungur til Brentford á Englandi. Hann hefur leikið einn leik fyrir aðallið félagsins. Patrik er nú á láni hjá Silkeborg sem er í toppbaráttunni í dönsku B-deildinni. Þar áður lék hann með Viborg í sömu deild.

Patrik var valinn í A-landsliðið fyrir vináttulandsleiki þess í janúar í fyrra en á enn eftir að leika sinn fyrsta A-landsleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×