Innlent

Tvö björgunarskip og TF-EIR kölluð út vegna vélarvana báts

Eiður Þór Árnason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út laust eftir fjögur í dag. 
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út laust eftir fjögur í dag.  Landhelgisgæslan

Rétt upp úr klukkan fjögur í dag voru tvö björgunarskip og TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kölluð út vegna vélarvana báts. Átta eru um borð en báturinn er staddur í nágrenni Hlöðuvíkur á Hornströndum.

Einnig voru kölluð til nærliggjandi skip og eru tvö þeirra á leiðinni á vettvang ásamt björgunarskipunum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Að sögn Landhelgisgæslunnar fékk stjórnstöð uppkall frá skipstjóra farþegabáts skömmu eftir fjögur sem tilkynnti að leki væri kominn að bátnum auk þess sem hann væri aflvana. 

Reynt að draga bátinn inn í Ísafjarðardjúp

Samkvæmt tilkynningu var áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kölluð út þegar í stað ásamt björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Bolungarvík og á Ísafirði. Að auki voru skip og bátar í grenndinni beðin um að halda tafarlaust á staðinn.

Veður og sjólag er sagt með ágætum en laust eftir klukkan fimm kom fiskibáturinn Otur er að farþegabátnum. Dælur hafa haft undan að sögn Gæslunnar og er gert ráð fyrir að báturinn verði tekinn í tog áleiðis inn í Ísafjarðardjúp. Viðbragði þyrlusveitar og björgunarskipa er haldið áfram sem stendur.

Uppfært klukkan 17:50: Björgunarskipið Gísli Jónsson er nú komið að farþegabátnum sem og tveir aðrir bátar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×