Juventus vann 3-2 sigur á Porto en féll úr leik á útivallarmörkum, 4-4 samanlagt. Borussia Dortmund og Sevilla gerðu 2-2 jafntefli en þýska liðið fór áfram, 5-4 samanlagt.
Leikur Juventus og Porto á Allianz vellinum í Tórínó var frábær skemmtun. Sérgio Oliveira kom Porto í 0-1 úr vítaspyrnu á 19. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Federico Chiesa jafnaði fyrir Juventus á 49. mínútu og fimm mínútum síðar vænkaðist hagur Ítalíumeistaranna enn frekar þegar Mehdi Taremi, framherji Porto, var rekinn af velli fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að dómarinn var búinn að flauta.
Chiesa kom Juventus yfir á 63. mínútu með skalla eftir eina af fjölmörgum fyrirgjöfum Juans Cuadrado í leiknum og því þurfti að framlengja.
Á 115. mínútu fékk Porto aukaspyrnu langt fyrir utan vítateig. Oliveira tók hana og skoraði með föstu skoti. Varnarveggur Juventus var hinn asnalegasti í markinu en Cristiano Ronaldo sneri til að mynda baki í boltann.
Adrien Rabiot kom Juventus í 3-2 með skalla eftir hornspyrnu Federicos Bernadeschi á 117. mínútu en nær komust ítölsku meistararnir ekki og Porto fagnaði sæti í átta liða úrslitunum.
Eins og í fyrri leik Dortmund og Sevilla kom Erling Haaland mikið við sögu í leik liðanna á Signal Iduna Park í gær.
Norðmaðurinn kom Dortmund yfir á 35. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Haaland skoraði annað mark sitt í upphafi seinni hálfleiks en það var dæmt af vegna brots á Jules Koundé. Cüneyt Cakir, dómari leiksins, dæmdi hins vegar vítaspyrnu á Koundé fyrir brot á Haaland nokkru áður en Norðmaðurinn skoraði.
Haaland tók vítaspyrnuna en Bono, markvörður Sevilla, varði. Hann var hins vegar farinn af línunni og því þurfti að endurtaka spyrnuna. Haaland setti boltann í sama horn, skoraði og fagnaði fyrir framan Bono. Hann fékk gult spjald fyrir fagnaðarlætin.
Haaland scored
— Goal (@goal) March 9, 2021
But VAR ruled the goal out
Then gave Dortmund a pen
Bono saved it
And the rebound
But VAR ordered a retake
Haaland scored #UCL pic.twitter.com/LGZ5mJUigF
Youssef En-Nesyri minnkaði muninn fyrir Sevilla úr víti á 69. mínútu og þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði hann með skalla eftir fyrirgjöf Ivans Rakitic. Lokatölur 2-2 en Dortmund fór áfram, 5-4 samanlagt.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.