Innlent

„Skjálftavirknin sýnir að þetta er ekkert búið”

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Útlit er fyrir að kvikan hafi engan sérstakan áhuga á að koma upp á yfirborðið, segir Magnús Tumi.
Útlit er fyrir að kvikan hafi engan sérstakan áhuga á að koma upp á yfirborðið, segir Magnús Tumi. Vísir/Vilhelm

Skjálftavirknin á Reykjanesskaga sýnir að þetta er ekki búið, segir jarðeðlisfræðingur. Ekki eru merki um að gos séu að hefjast í dag en ómögulegt að spá fyrir um næstu daga. Um þúsund skjálftar hafa mælst frá miðnætti.

Jarðskjálftavirknin er áfram að mestu bundin við Fagradalsfjall eftir að hún færði sig meira í áttina að Grindavík í gærkvöldi. Enginn skjálfti yfir fjórum að stærð varð í nótt en fjórir mældust sem voru þrír að stærð. Þá varð öflugur skjálfti í Grindavík í gær sem í fyrstu var mældur 3,5 að stærð. Hann hefur hins vegar verið endurreiknaður og var 4,2 að stærð.

„Skjálftavirknin sýnir að þetta er ekkert búið. En eins og staðan er núna þá eru engin merki um að gos sé að brjótast upp til yfirborðs. Það getur samt gerst að staðan breytist og að kvikan fari af stað, en við sjáum engin merki um það núna,” segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. „Það er allavega ekki að byrja að gjósa núna en hvað gerist seinna í dag eða á morgun vitum við náttúrlega ekki.”

Hann segir að vel sé fylgst með gangi mála.

„Það virðist vera að þessi kvika hafi ekkert voða mikinn áhuga á að koma upp á yfirborðið núna, en við sjáum bara hvað setur,” segir Magnús Tumi.

Atburðurinn enn í gangi

Vísindaráð almannavarna fundar klukkan tólf til að fara yfir stöðuna, að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Í gær mældust um þrjú þúsund skjálftar, og frá miðnætti hafa mælst um þúsund skjálftar. Það er enginn órói á svæðinu en skjálftavirkni er enn mikil á sömu svæðum og undanfarna daga,” segir Einar og bætir við að gosórói hafi minnkað.

„Atburðurinn er enn þá í gangi og enn mikil jarðskjálftavirkni á svæðinu. Henni er ekki lokið eins og er. En við teljum að á meðan það sést ekki til óróa að það séu minni líkur á að kvikan leiti til yfirborðs.”



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×