Innlent

„Við verðum bara að vera undir allt búin“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands. Vísir/vilhelm

Engin merki er að finna í nýjustu gögnum um að kvika sé að nálgast yfirborð á Reykjanesi. Aftur á móti er enn óljóst hvort jarðhræringarnar á svæðinu komi til með að líða hjá á næstu dögum eða hvort komi til eldgoss.

Þetta segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands. Hún greindi frá því helsta sem lesa má úr gögnum sem bárust frá gervihnetti í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það kom okkur kannski dálítið á óvart að það skildu ekki vera meiri breytingar, við bjuggumst kannski við meiri breytingum í kjölfar óróapúlsins í gær,“ sagði Kristín. Svo virðist sem atburðarásin hafi verið hröð í gær. „Eins og kvika hafi verið að skjóta sér aðeins til suðvesturs og það mjög hratt en kannski ekki svo stórt.“

Myndirnar sýni að kvikugangurinn sé enn að vaxa og að kvika sé undir Fagradalsfjalli. Búast megi við því að það verði jarðskjálftavirkni þar og einnig á svæðinu í kring. „Vegna þess að það verða spennubreytingar í rauninni í kjölfar þessarar opnunar,“ útskýrir Kristín.

Er þá hættan á eldgosi liðin hjá eða eru ennþá líkur á að eldgos muni hefjast?

„Við sjáum engin merki í gögnunum okkar um að kvikan sé að nálgast yfirborð. Þetta er kaflaskipt virkni og við verðum bara að vera undir allt búin, að þetta verði eitthvað langhlaup, að það taki einhverja daga að líða hjá nú eða endi með eldgosi, við bara vitum það ekki,“ svaraði Kristín.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.