Innlent

Þurftu að vísa frá fólki á níræðisaldri í bólusetningu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bóluefnið kláraðist um klukkan hálf þrjú, hálftíma áður en bólusetningunni átti að ljúka.
Bóluefnið kláraðist um klukkan hálf þrjú, hálftíma áður en bólusetningunni átti að ljúka. Vísir/Egill

Um fimmtíu manns á níræðisaldri sem voru boðaðir í bólusetningu gegn kórónuveirunni í Laugardalshöll þurftu frá að hverfa þegar bóluefnið kláraðist í dag.

Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að meiri þátttaka en búist var við hafi orðið til þess vísa þurfti fólki frá.

Bólusetning með bóluefni Pfizer fór fram í Laugardalshöll í Reykjavík í gær og í dag. Allir þeir sem eru fæddir árið 1939 eða fyrr voru upphaflega boðaðir í bólusetninguna. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni, segir að í ljósi þátttökunnar í gær hafi verið ákveðið í gærkvöldi að boða einnig fólk fætt 1940 og fyrr í bólusetninguna í dag.

Þátttakan í dag fór fram úr væntingum og því var bóluefnið á þrotum um klukkan hálf þrjú, hálftíma fyrir lok auglýsts tíma. Ragnheiður Ósk áætlar að um fimmtíu manns hafi verið vísað frá, líklega flestum fæddir 1940.

Bóluefnið Pfizer er viðkvæmt og hafa heilbrigðisstarfsmenn aðeins fimm tíma til þess að gefa það eftir að sprauturnar eru blandaðar. Því segir Ragnheiður Ósk að reynt hafi verið að komast hjá því að heilsugæslan sætu uppi með afgangsbóluefni með því að boða fleiri í bólusetningu.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Sigurjón

Erfitt sé að meta hversu mikil þátttakan verði fyrirfram og því hafi farið sem fór.

„Ótrúlegt en satt tóku 90% þessu mjög vel og sýndu skilning og ætluðu bara að heimsækja okkur eftir viku. Það var auðvitað einn og einn sem var ekki alveg hress, það verður að segjast. Og alveg skiljanlegt, þetta var svona fýluferð,“ segir Ragnheiður Ósk.

Önnur sending af Pfizer-bóluefninu er væntanleg og verður bólusetningunni haldið áfram eftir viku. Þeir sem þurftu frá að hverfa í dag verða boðaðir aftur þá.

Klippa: Bóluefni kláraðist skömmu fyrir lokun


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.