Fótbolti

Krotuðu hatur­s­orð til ná­grannanna á lest

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá lestinni.
Frá lestinni. mynd/twitter

Það verður seint sagt að það sé mikil vinátta á milli Kaupmannahafnarliðanna FCK og Bröndby en liðin mætast einmitt í dönsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Mikið hatur er á milli liðanna; innan vallar og enn fremur fyrir utan völlinn. Regluleg eru slagsmál á milli stuðningsmannahópa liðanna og þau óhrædd við að senda hvor öðru tóninn á samskiptamiðlum.

Eins og áður segir mætast liðin í annað sinn á þessari leiktíð og einhverjir stuðningsmenn FCK hafa hafið undirbúning fyrir leik helgarinnar.

Í gær mátti nefnilega sjá eina lest, sem keyrir um götur Kaupmannahafnar, málaða í skilaboðum til vesturhluta Kaupmannahafnar.

„Anti 1964,“ stóð á lestinni sem var öll máluð svört en Bröndby var stofnað 1964 og nota harðkjarna stuðningsmenn FCK reglulega þessa setningu til að lýsa hatri sínu á gulklædda liði borgarinnar.

Það verða þó engir áhorfendur á leik sunnudagsins, sem fer fram í Bröndby, en ansi líklegt er að hörðustu stuðningsmannahópar liðanna muni vera með einhvern gjörning í kringum leikinn.

FCK vann í kvöld sigur á Vejle en Bröndby spilar annað kvöld gegn Randers. Þeir gulklæddu eru í öðru sætinu á meðan FCK er í því þriðja.

Íslenski landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson er á mála hjá Bröndby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×