Innlent

Skoða leiðir til að verja Suðurnesjalínu fyrir mögulegu eldgosi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Upplýsingafulltrúi Landsnets segir að virkjanirnar á svæðinu gætu séð svæðinu fyrir rafmagni ef Suðurnesjalínan myndi fara út fyrirvararlaust.
Upplýsingafulltrúi Landsnets segir að virkjanirnar á svæðinu gætu séð svæðinu fyrir rafmagni ef Suðurnesjalínan myndi fara út fyrirvararlaust. Vísir/Vilhelm

Landsnet býr nú starfsemi sína undir nokkrar sviðsmyndir ef til eldgoss kæmi á Reykjanesskaga.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að nokkrir möguleikar séu í stöðunni til að verja Suðurnesjalínu 1, sem er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum í dag.

Suðurnesjalína 1 er undir smásjá Landsnets þessa dagana með tilliti til viðbragðsáætlana ef til eldgoss kæmi á Reykjanesi. Suðurnesjalínan liggur sunnan megin við Reykjanesbrautina frá Hafnarfirði og að Fitjum í Reykjanesbæ.

„Nú erum við að skoða þessar sviðsmyndir með almannavörnum, Veðurstofunni og orkufyrirtækjum á svæðinu. Ef til þess kæmi að hraun myndi renna í átt að Suðurnesjalínu 1 þá höfum við ýmsa möguleika til að bregðast við. Það myndi eflaust taka einhvern tíma; einhverja daga fyrir hraunið að komast að línufarveginum og við erum bara að skoða hvaða möguleika við höfum í dag til að bregðast við ef svo yrði.“

Hvaða möguleikar eru í stöðunni?

„Við erum að skoða til dæmis möguleikann á að verja undirstöðurnar á möstrunum; að styrkja þær með einhverjum hætti og svo er líka alveg í myndinni að kæla hraunið og beina þá hraunrennslinu frá línunni.“

Þá er einnig sá möguleiki fyrir hendi að beita varaafli.

„Ef það myndi gerast að Suðurnesjalínan myndi fara út fyrirvaralaust þá höfum við þann möguleika á að geta rekið kerfið í eyjarekstri sem þýðir að virkjanirnar á svæðinu; Reykjanesvirkjun og Svartsengi gætu séð svæðinu fyrir rafmagni. Síðan erum við líka að færa til færanlegt varaafl annars staðar af landinu. Við erum að færa það nær Reykjanesinu svo við gætum brugðist við ef til rafmagnsleysis kæmi.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.