Fótbolti

Jón Daði byrjaði í dramatískum sigri og Jökull hélt hreinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Daði í leik kvöldsins.
Jón Daði í leik kvöldsins. Julian Finney/Getty Images

Fjöldi leikja fór fram í ensku neðri deildunum í kvöld. Jón Daði Böðvarsson var í eldlínunni er Millwall vann Preston 2-1 í ensku B-deildinni. Sömu sögu er að segja af Jökli Andréssyni sem lék allan leikinn í markalausu jafntefli Exeter City gegn Walsall.

Jón Daði var í byrjunarliði Milliwall í kvöld er liðið tók á móti Preston North End. Leikurinn fór ekki byrlega af stað fyrir heimamenn en Ched Evans kom Preston yfir strax á 12. mínútu leiksins.

Þegar sex mínútur voru til loka fyrri hálfleiks jafnaði Scott Malone metin og staðan því 1-1 í hálfleik. Jón Daði var svo tekinn af velli þegar fimm mínútur voru til leiksloka og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Mason Bennett sigurmarkið.

Lokatölur 2-1 og Millwall komið upp í 10. sæti þar sem liðið er með 46 stig, aðeins sjö stigum minna en Cardiff City sem er í sjötta sæti deildarinnar. Liðin í 3. til 6. sæti ensku B-deildarinnar fara í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.

Cardiff City gerði sér lítið fyrir og vann lærisveina Wayne Rooney í Derby County 4-0 í kvöld.

Í ensku D-deildinni var Jökull Andrésson milli stanganna hjá Exeter City er liðið tók á móti Walsall. Jökull er á láni frá Reading sem leikur í B-deildinni. Ekki er mikið meira um leikinn að segja en leiknum lauk 0-0.

Exeter er í 9. sæti með 47 stig, tveimur stigum frá 7. sætinu en í D-deildinni fara liðin í 4. til 7. sæti í umspil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.