Innlent

Ekki talinn geta spillt sönnunargögnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Egilla

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn á morðinu við Rauðagerði þann 13. febrúar, segir þá aðila sem látnir hafa verið lausir úr gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglu ekki talda geta spillt sönnunargögnum.

Búið sé að ná utan um þá þætti málsins sem þeir tengist og því ekki tilefni til frekara gæsluvarðhalds. Þeir séu enn sakborningar í málinu.

Íslendingur á fimmtugsaldri var látinn laus úr haldi í dag þegar gæsluvarðhald yfir honum rann út. Honum er þó gert að sæta farbanni í fjórar vikur og má því ekki fara úr landi.

Morðið í Rauðagerði er með stærri sakamálarannsóknum seinni ára hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Margeir segir um tuttugu manns hjá lögreglu og á ákærusviðinu koma að rannsókn málsins. Alls hafa níu sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins en alls hafa tólf verið handteknir.

Fimm eru enn í gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhald yfir fjórum rennur út á morgun og þeim fimmta á föstudaginn. Margeir segir að ákvörðun hafi verið tekin að krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir þremur hinna fjögurra á morgun. Lögregla hafi ekki tekið ákvörðun í tilfelli fjórða mannsins.

Þeir sem hafa sætt gæsluvarðhaldi hafa verið í einangrun á Hólmsheiði þar sem lögregla hefur aðstöðu til að yfirheyra sakborninga. Margeir vill ekki tjá sig um einstaka þætti sem fram hafa komið við rannsókn málsins og gefur ekki uppi hvort morðvopnið sé fundið. Fréttastofa hafði heimildir fyrir því á dögunum að morðvopnið væri ófundið.

Margeir segir lögreglu enn bíða niðurstaða úr krufningu á hinum látna. Það sé þó aðeins eitt af málsgögnum sem lögregla vilji skoða. Margt annað sé í gangi í málinu en krufningarskýrsla vissulega meðal gagna sem beðið er.

Hann vill ekki segja til um hvort lögregla telji sig hafa grunaðan morðingja í haldi en segir þó að lögregla telji sig hafa handtekið alla þá sem tengist málinu á einhvern hátt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×