Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík fann vel fyrir skjálftunum. Foto: Egill/Egill Aðalsteinsson
Tveir snarpir jarðskjálftar hafa orðið nú í hádeginu á Reykjanesinu. Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir bæjarbúa hafa fundið vel fyrir þeim báðum og að það hafi hrist vel. Íbúar séu orðnir flestu vanir eftir síðustu tvo daga. „Þetta venst en það er óþægilegt ef þeir eru mjög stórir,“ segir Fannar.
Tveir skjálftar stærri en fjórir að stærð fundust upp úr klukkan tólf og virðist ekkert lát á skjálftavirkninni sem verið hefur á svæðinu undanfarna tvo sólarhringa. Fyrsti stóri skjálftinn reið yfir klukkan 12:06 og mældist 4,4 að stærð samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofu Íslands. Þremur mínútum síðar varð annar skjálfti 4,3 að stærð.
Sjálfur sat Fannar fjarfund hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra þegar skjálftarnir riðu yfir. Hann segir fundamenn hafa fundið fyrir skjálftunum, þar á meðal einn sem var austur í Flóa.
Fannar segir að bæjarbúar hafi verið farnir að vonast til að jarðskjálftahrinan hafi verið að fjara út. „Þó við séum ýmsu vön þá var það auðvitað þægileg tilfinning að skjálftunum hafi farið fækkandi og orðið minni.“
Fannar segir bæjaryfirvöld í Grindavík funda daglega með almannavörnum nú til að fá upplýsingar um gang mála en ljóst sé að búast megi við fleiri eftirskjálftum.
Enn nötrar jörðin á suðvesturhorninu þar sem stórir skjálftar finnast. Stór skjálfti að stærð 4,4 reið yfir upp úr klukkan tólf og virðist ekkert lát á skjálftavirkninni sem verið hefur á svæðinu undanfarna tvo sólarhringa.
Klukkan 08:37 varð jarðskjálfti að stærð 3,2 um 2,1 kílómetra austur af Fagradalsfjalli. Skjálftinn fannst meðal annars á höfuðborgarsvæðinu og í Grindavík.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir margt geta orðið tilefni til þess að grípa þyrfti til rýminga á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir mikilvægt að fólk fái traustar upplýsingar og ani ekki af stað, ef til rýminga kæmi.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.