Fótbolti

Strákarnir hans Gerrards geta orðið meistarar á heimavelli Celtic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rangers myndi væntanlega ekki leiðast það neitt að verða meistarar á heimavelli erkifjendanna í Celtic.
Rangers myndi væntanlega ekki leiðast það neitt að verða meistarar á heimavelli erkifjendanna í Celtic. getty/Ian MacNicol

Rangers vantar aðeins sjö stig til að vinna skoska meistaratitilinn. Liðið getur orðið meistari á heimavelli erkifjendanna í Celtic.

Í gær vann Rangers 4-1 sigur á Dundee United í skosku úrvalsdeildinni á meðan Celtic tapaði fyrir Ross County, 1-0.

Rangers er með 82 stig á toppi skosku úrvalsdeildarinnar, átján stigum á undan Celtic. Rangers er enn ósigrað í deildinni á tímabilinu, hefur unnið 26 af þrjátíu leikjum sínum og markatalan er 73-9.

Strákana hans Stevens Gerrard vantar nú aðeins sjö stig til að tryggja sér skoska meistaratitilinn. Næstu þrír deildarleikir Rangers eru gegn Livingston, St. Mirren og Celtic.

Rangers sækir Celtic heim á Celtic Park 21. mars og getur með hagstæðum úrslitum þar orðið skoskur meistari í 55. sinn í sögu félagsins og í fyrsta sinn í áratug.

Mikið hefur gengið á síðan Rangers varð meistari síðast, tímabilið 2010-11. Liðið varð gjaldþrota og þurfti að byrja upp á nýtt í neðstu deild.

Rangers komst upp í skosku úrvalsdeildina 2016 og Gerrard tók við liðinu tveimur árum seinna. Undir hans stjórn endaði Rangers í 2. sæti á síðasta tímabili og næsta víst er að liðið verður meistari í vetur.

Celtic, sem hefur orðið skoskur meistari níu ár í röð, hefur átt afleitt tímabil og ýmislegt hefur gengið á hjá liðinu, jafnt innan vallar sem utan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.