Innlent

Fjölga leik­skóla­plássum um fimm­tíu

Sylvía Hall skrifar
Leikskólinn Laugasól í Laugardal.
Leikskólinn Laugasól í Laugardal. Vísir/Vilhelm

Leikskólinn Laugasól mun geta tekið á móti fimmtíu börnum til viðbótar eftir að endurbætur verða gerðar á núverandi kjallara leikskólans, en borgarráð hefur samþykkt að heimila formlegan undirbúning að stækkun og endurbótum á leikskólanum.

Laugasól er í dag fjögurra deilda leikskóli með um 95 börn, en hann er við Leirulæk í Laugardal. Með endurbótum á kjallaranum verður hægt að bæta við tveimur deildum og fjölga plássum í leikskólanum um allt að fimmtíu.

Hingað til hefur kjallarinn verið nýttur sem geymsla, starfsmannarými, listasmiðja og fjölnota salur en engin starfsemi hefur verið í kjallaranum síðan í lok síðasta árs þar sem ráðast þarf í endurbætur á húsnæðinu sökum rakavandamála.

Kjallaranum verður breytt í jarðhæð með því að grafa frá húsinu, laga útveggi og glugga og bæta við útgangi á lóð, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þá er einnig ráðgert að hafa listasmiðju og starfsmannarými í kjallaranum og verður lyftu komið fyrir til að tryggja aðgengi fyrir alla.

„Eftir breytingarnar verður pláss fyrir samtals 141-145 börn á sex deildum á Laugasól en gert er ráð fyrir 10-12 nýjum stöðugildum við leikskólann í kjölfar stækkunar en núverandi stöðugildi við leikskólann eru 28,“ segir í tilkynningu.

Frumkostnaðaráætlun vegna breytinga á húsnæði og lóð er 410 milljónir króna, en óháð þeirri framkvæmd er gert ráð fyrir viðhaldi upp á 140 milljónir króna á næstu árum. Áætlað er að húsnæði og lóð verði tilbúin fyrir starfsemi í febrúar á næsta ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×