Innlent

Breyta aksturstefnu í Tryggvagötu meðan unnið er að sólartorgi fyrir sumarið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tölvugerð mynd af Tryggvagötu eins og hún á að líta út að loknum framkvæmdum í byrjun sumars.
Tölvugerð mynd af Tryggvagötu eins og hún á að líta út að loknum framkvæmdum í byrjun sumars. Onno

Tryggvagata við Tollhúsið í miðbæ Reykjavíkur verður lokuð fyrir akandi umferð fram á sumar á meðn yfirborðsfrágangi við endurnýjun götunnar stendur yfir. Til stendur að gatan verði tilbúin fyrir sumarið en eftir breytingar vill borgin að mannlíf fái að njóta sín í götunni. Hluti af því er sólartorg fyrir framan listaverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu.

Reykjavíkurborg og Veitur hófu framkvæmdir á þessum hluta Tryggvagötu í fyrra en yfirborðsfrágangur er eftir. Lagnir eru endurnýjaðar auk þess sem gatan fær nýtt og fallegt yfirborð, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Hitastig hefur verið yfir frostmarki í höfuðborginni undanfarið og segir í tilkynningunni að markmiðið sé að nýta góða tíð til að klára þennan hluta verksins á vetramánuðum. Stefnt sé að því að klára stéttina sunnan megin í apríl en að torgið sjálft við listaverkið verði klárt fyrir sumarið.

Tryggvagata verður eftir breytingarnar vist­gata. Vistgata er gata þar sem um­ferð gang­andi veg­far­enda og hæg­fara öku­tækja, eins og reiðhjóla, hjóla­skauta eða hjóla­bretta, hef­ur for­gang um­fram um­ferð bíla og er hraði tak­markaður við göngu­hraða og gang­andi veg­far­end­ur. Í nú­gild­andi lög­um er há­marks­hraði á vist­göt­um 10 km/​klst.Onno

„Verður gaman að sjá mannlífið færast út á torgið í sumar en rekstraraðilar við Tryggvagötu munu fá tækifæri til að nota hluta torgsins fyrir gesti sína, í samstarfi við Reykjavíkurborg, sem mun áreiðanlega skapa góða stemningu.“

Gönguleið meðfram Tryggvagötu sunnanverðri verður haldið opinni og aðgengi rekstraraðila tryggt. Á meðan grafið er næst húsunum verður notast við rampa til að tryggja aðgengi að þeim rekstri sem þarna er. Tekið er fram að lögð sé áhersla á að sá tími verði sem stystur.

Framkvæmdir í Tryggvagötu fyrir framan Tollhúsið hófust í fyrra.Vísir/Vilhelm

Framkvæmdasvæðið verður lokað fyrir akandi umferð á meðan á framkvæmdatíma stendur. Umferðin verður með sama hætti og á meðan framkvæmdum stóð á síðasta ári. Umferðarstefnu verður snúið við í hluta Tryggvagötu á milli Pósthússtrætis og Lækjargötu. Þannig verður hægt að beygja frá Pósthússtræti austur Tryggvagötu að Lækjargötu.

Tryggvagatan verður lokuð á milli Grófarinnar, frá Grillhúsinu að Naustum. Það svæði breytist í vor í botnlanga sem er aðgengilegur frá Naustum þegar framkvæmdasvæðið færist yfir á gatnamót Grófarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×